Ráðherrar bregðast við: „Mótmælum öll!“

29.01.2017 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa brugðist við tilskipun Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um að loka landamærum Bandaríkjanna tímabundið fyrir flóttamönnum og ríkisborgurum tiltekinna landa. Bæði Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, skrifa á samfélagsmiðla og lýsa áhyggjum sínum af stefnu Bandaríkjaforseta.

Óttarr hvetur alla til að mótmæla. „Það er þyngra en tárum taki að upplifa þá mismunun og mannvonsku sem nýr bandaríkjaforseti leyfir sér að innleiða gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Hinn frjálsi heimur hlýtur að sameinast í fordæmingu," skrifar hann á facebook.

Hann minnir fólk á að það sé nauðsynlegt að berjast fyrir því góða í heiminum, enda sigri það ekki af sjálfu sér. Loks vitnar hann í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi þar sem fram kemur vilji um að taka á móti fleiri flóttamönnum og auðvelda innflytjendum að ná fótfestu á Íslandi.

Guðlaugur Þór Þórðarsson skrifar bæði á Twitter og Facebook. Hann segir að það eigi vissulega að vera forgangsatriði að berjast gegn hryðjuverkum. Hins vegar verði baráttan erfiðari og það geri illt verra ef fólki er mismunað eftir trúarbrögðum eða kynþætti. Guðlaugur skrifar tíst sitt á Twitter bæði á íslensku og ensku.

Með tilskipun Bandaríkjaforseta er ríkisborgurum frá sjö löndum bannað að koma til landsins. Löndin eru Írak, Sýrland, Súdan, Íran, Sómalía, Líbía og Jemen. Þar er einnig kveðið á um að móttöku flóttamanna skuli frestað í 120 daga og að flóttamönnum frá Sýrlandi og Írak verði bannað að koma til landsins. Tilskipunin hefur vakið hörð viðbrögð víða um heim.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi