Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherra vill hert viðurlög fyrir brot

07.10.2018 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra vill að háar sektargreiðslur og hugsanlega refsing verði lagðar á þá atvinnurekendur sem ítrekað verða uppvísir að því að brjóta á launafólki. Þá vill hann sérsveit sem fari í eftirlit á vinnustaði það vanti slagkraft þegar fulltrúar einnar stofnunar fari á svæðið. 

Í viðtali í Silfrinu í Sjónvarpinu rétt ræddi hann málið í framhaldi af umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks í vikunni um slæma meðferð á starfsfólki. Ásmundur bindur vonir við starfshóp sem hann skipar næstu daga sem fara á yfir regluverk og samvinnu stofnanna og annarra sem á þessum málefnum koma. Þá vill hann að lögð verði áhersla á þetta í komandi kjarasamningaviðræðum. 

„Ég vil sjá þegar að menn eru ítrekað að brjóta af sér og það er það sem við sáum svolítið í þessum þætti að þetta eru mjög markviss og meðvituð, endurtekin, endurtekin atriði, sem að menn eru að brjóta. Þá á það að vera með einhverjum hætti að það eiga að vera viðurlög við slíku. Hvort sem það eru mjög háar sektargreiðslur eða einfaldlega ef að það eru mjög alvarlegar aðgerðir að þá séu hugsanlega einhverjar refsingar. Síðan þurfum við að setja það með miklu markvissari hætti að það sé einhver sérstök sérsveit í þessum málaflokki. Sérsveit, sem að geti farið um, geti gripið inn í, og það séu þá allir aðilar þar við borðið. Vegna þess að þetta er svoldið þegar einn aðili með slagkraft, það vantar aðra aðila þar að borðinu, einhverja sérsveit, sem gæti farið á milli aðila.“