Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ráðherra vill breyta framsalslögum

07.11.2011 - 22:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Framsalssamningur milli Póllands og Íslands er þeim vandkvæðum bundinn að ríkin framselja ekki eigin ríkisborgara. Innanríkisráðherra vill að ákvæðinu verði breytt.

Íslenska ríkið hefur gert fyrirvara um að íslenskir ríkisborgar verði ekki framseldir til annarra ríkja, nema Norðurlandanna. Meðan það ákvæði er í gildi þá beita önnur ríki þessu sama ákvæði okkur. Þess vegna voru Pólverjarnir sem rændu Michelsen úrsmið í síðsta mánuði látir lausir eftir að þeir voru handsamaðir í smábæ í Póllandi í síðustu viku.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknari og innanríkisráðuneytið þurfa nú að taka ákvörðun um framhald málsins. Þangað til ganga mennirnir lausir.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöld að þótt bæði Ísland og Pólland ættu aðild að framsalssáttmála Evrópuráðsins væri sá hængur er að bæði ríkin áskilja sér að þau skuldbindi sig ekki til að framselja eigin ríkisborgara. „Við erum reyndar með á vinnsluborðinu núna frumvarp sem nemur þennan fyrirvara úr gildi. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir það að pólsk lögregluyfirvöld rannsaki málið og taki það yfir þó að þau séu ekki skuldbundin til að gera það. Það er nokkuð sem við munum kanna og við munum fara yfir málið á morgun og athuga hvort hægt sé að koma þessu við.“

Pólverjarnir eru áfram eftirlýstir og ef þeir fara út fyrir landamærin verða þeir handteknir og framseldir til Íslands.