Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ráðherra þarf að vanda sig vilji hann traust

31.01.2018 - 21:20
Mynd: RÚV / RÚV
Oddviti Árneshrepps segir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra þurfi að vanda sig sérstaklega vel vilji hann að honum sé treyst í ljósi fyrri starfa hans. „Hann verður að vanda sig mjög vel ef við eigum að treysta því að hann taki málefnalega á málum,“ segir oddvitinn Eva Sigurbjörnsdóttir.

„Af því að hann er náttúrulega búinn að vera algjörlega á móti bæði virkjun og vegagerð og laxeldi hér á Vestfjörðum. Allt eru þetta mál sem núna heyra undir hann og ég veit að það er víða sem fólk er svolítið bangið við þetta og finnst að það muni ekki fá sanngjarna meðhöndlun,“ segir Eva.

Meirihluti hreppsnefndar Árneshrepps samþykkti á dögunum breytingar á aðalskipulagi sem gerir verktakafyrirtækinu Vesturverki kleyft að hefja vegagerð uppá Ófeigsfjarðarheiði, þar sem fyrirhugað er að reisa umdeilda Hvalárvirkjun. Einnig var veitt leyfi til efnistöku og uppsetningar vinnubúða.

Það hefur vakið gagnrýni að hreppurinn skuli taka jákvætt í fjárstuðning Vesturverks við ýmiskonar uppbyggingu í sveitarfélaginu, á sama tíma og hreppsnefndin neitar að þiggja boð Sigurðar Gísla Pálmasonar um að borga fyrir samanburð á kostum þess að virkja eða gera þjóðgarð. Rætt var við Evu um málið í Kastljósi í kvöld. Sjá má viðtalið í spilaranum hér að ofan.