Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ráðherra þarf að loka NA/SV brautinni

22.03.2016 - 15:16
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp þann dóm í dag að innanríkisráðherra væri skylt loka norðaustur-suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar innan 16 vikna. Þetta er niðurstaðan í dómsmáli sem Reykjavíkurborg höfðaði gegn innanríkisráðherra og fjármálaráðherra, þar sem þess var krafist að brautinni yrði lokað og að skipulagsreglur vallarins yrðu endurskoðaðar, til samræmis við lokun brautarinnar.

Dómurinn féllst í meginatriðum á báðar kröfur borgarinnar en auk þess verður ráðherra gert að greiða dagsektir, verði brautinni ekki lokað innan sextán vikna, eina milljón króna fyrir hvern dag. 

Í dómnum kemur fram að þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi verið til þess bær að skuldbinda sig til þess að loka flugbrautinni samkvæmt samkomulagi við Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóra. Ráðherra hafi til þess vald að gefa fyrirmæli á borð við þau að loka skuli flugbraut, án þess að þurfa sérstaka heimild frá Alþingi til þess. Hann geti jafnvel tekið ákvörðun um lokun flugvalla, sé því að skipta. 

Skýr og fyrirvaralaus skuldbinding

Í samkomulaginu sem Hanna Birna og Jón Gnarr skrifuðu undir í október 2013, telur héraðsdómur að orðalagið feli í sér skýra og fyrirvaralausa skuldbindingu innanríkisráðherra um lokun flugbrautarinnar og endurskoðun skipulagsreglna flugvallarins í samræmi við það. Þá sé ljóst að lokunin skuli fara fram samhliða auglýsingu deiliskipulags fyrir svæði sem um ræðir, og að gert hafi verið ráð fyrir því að sú auglýsing yrði birt á árinu 2013. Reykjavíkurborg hafi efnt samkomulag um efndartíma, en innanríkisráðherra ekki. 

Forsenda öryggis ekki brostin

Í rökum ráðherra kom fram að forsenda fyrir gerð samkomulagsins hafi verið viðunandi öryggis- og þjónustustig flugvallarins. Ekki hafi verið hægt að ákveða lokun brautarinnar án fullvissu um að slíkt kæmi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda verði fullnægjandi öryggistigi fyrir alla landsmenn. Í niðurstöðu héraðsdóms er tekið undir að öryggi hafi verið forsenda samkomulagsins, en hins vegar séu engin haldbær rök fyrir því sú forsenda hafi brostið. Af gögnum málsins megi rekja að lokun flugbrautarinnar hafi ekki meiri áhrif á notkun flugvallarins en gera mátti ráð fyrir þegar samkomulagið var undirritað. Er þar sérstaklega vísað til skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Isavia. 

Var því fallist á kröfur Reykjavíkurborgar efnislega, en þar var einnig farið fram á að brautinni yrði lokað innan fjögurra vikna og að lagðar yrðu á dagsektir, 10 milljón krónur á dag. Dómurinn gaf ráðherra hins vegar fjórfalt lengri tíma, 16 vikur og greiðslu dagsekta til borgarinnar upp á milljón krónur fyrir hvern dag umfram þær 16 vikur sem ráðherrann hefur frá og með deginum í dag.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV