Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ráðherra skoðar stækkun sjúkrahússins

11.10.2015 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðherra segir tiltölulega brýnt að stækka Sjúkrahúsið á Akureyri en vill kynna sér nýja skýrslu áður en hann svarar því hvort hann beiti sér fyrir fjárveitingum til þess á næsta ári.

Ráðherra skipaði sjö manna vinnuhóp til að uppfæra og endurskoða meira en tíu ára tillögur um uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Í hópnum var starfsfólk á Sjúkrahúsinu, bæjarstjórinn á Akureyri og skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.

Hópurinn telur nýbyggingu eina raunhæfa kostinn til að leysa þann vanda sem blasi við í húsnæðismálum sjúkrahússins, segir í tilkynningu. Reisa þurfi þriggja hæða 8500 fermetra hús undir legudeildir. Gróflega nemi kostnaður fimm milljörðum króna. Lagt er til að 200 milljónir verða veittar í hönnun og áætlanagerð á næsta ári og 300 á þarnæsta.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vildi ekki svara því í dag hvort hann myndi beita sér fyrir því að fé yrði veitt í þetta verkefni í fjárlagafrumvarpinu:
„Fyrst þarf ég nú að fara yfir skýrsluna, ég fékk hana í fyrradag og ætla bara að fara í gegnum hana. En við sjáum bara til hvaða svigrúm við höfum. Hversu brýnt er þetta verkefni miðað við önnur verkefni í ráðuneytinu? Þetta er tiltölulega brýnt. Við höfum síðast úttekt Landlæknisembættisins árið 2012 á aðstöðu legudeildar geðdeildarinnar hér á sjúkrahúsinu, sem að mati Landlæknisembættisins þá var algerlega óviðunandi þannig að það er verulega brýnt að bæta úr þörf en tímaramminn í þeim efnum liggur ekki fyrir ennþá.“

Samkvæmt skýrslu vinnuhópsins var nýting á legudeildum 70 prósent í fyrra. Þar kemur fram að miðað er við að nýting sé ekki meiri en 85 prósent á bráðaþjónustudeildum svo hægt sé að bregðast við óvæntum innlögnum.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV