Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherra segir báknið ekki vera að vaxa

13.09.2018 - 12:28
Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í morgun. Ráðherra vísaði í umræðunni á bug fullyrðingum um að báknið sé að vaxa í þessu frumvarpi og að það sé á skjön við samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokks. 

Ýmist er sagt um þetta frumvarp að útjöldin séu of mikil og báknið þannig að vaxa eða að það vanti fjármagn í hina ýmsu málaflokka. Útgjaldaaukningin er vissulega mikil enda víða verið að bæta í og yfir það fór fjármálaráðherra í umræðunni sem hófst í morgun og mun standa fram á kvöld. 

„Mikilvægt er nú þegar gera má ráð fyrir að í sljánki eftir mikinn vöxt síðustu ára að áfram sé tryggð festa og ráðfærni við stjórn opinberra fjármála. Ég verð að viðurkenna ég skil lítið í Sjálfstæðismönnum þegar kemur að þessu hvað vill þessi flokkur eiginlega vill hann hundrað milljarða króna útgjaldaaukningu í innviði eins og flokkurinn sagði kjósendum fyrir síðustu kosningar eða vill hann 300 milljarða króna niðurskurð eins og hann segir á landsfundum sínum?“ spurði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar í umræðunum.  

Bjarni Benediktsson svaraði andsvari. „Og ef menn vilja ræða við mig um útgjöldin og það hvort báknið er að vaxa að þá segi ég það er gríðarlegt fagnaðarefni fyrir okkur Íslendinga að hafa komist úr þeirri stöðu að vera fátækust meðal evrópuþjóða um aldamótin 1900 og hafa vaxið þannig fiskur um hrygg að geta gert betur á nánast öllum sviðum samfélagsins án þess að það sé hlutfallslega að íþyngja okkur meira en það hefur gert í fortíðinni."

Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins sagði frumvarpið útgjaldafrumvarp þar sem ekkert aðhald væri sýnt. Á morgun sitja svo fagráðherrar fyrir svörum um sína málaflokka.
 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV