Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Ráðherra ráðlagt að áfrýja ekki

02.03.2011 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Hæstaréttarlögmaður hjá ríkislögmanni mælti gegn því að umhverfisráðherra áfrýjaði dómi héraðsdóms, vegna aðalskipulags Flóahrepps, til hæstaréttar. Annar hæstaréttarlögmaður lagði hins vegar til að málinu yrði áfrýjað, sem varð raunin.

Umhverfisráðuneytið veitti í dag aðgang að minnisblöðum er varða annars vegar ákvörðun ráðherra um að synja skipulagi Flóahrepps staðfestingar og hins vegar ákvörðun um að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu til Hæstaréttar. Eins og kunnugt er neitaði ráðherra að staðfesta aðalskipulag sveitarfélagsins vegna þátttöku Landsvirkjunar í að greiða fyrir gerð skipulagsins vegna Urriðafossvirkjunar, en héraðsdómur felldi ákvörðun ráðherra úr gildi í september.

Umhverfisráðuneytið hélt fund tæpum tveimur vikum síðar til að leggja mat á áfrýjun málsins. Guðrún Margrét Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður hjá ríkislögmanni, lagðist þar gegn því að dóminum yrði áfrýjað til hæstaréttar. Hún taldi að erfitt yrði að snúa niðurstöðu héraðsdóms við, ráðuneytið hefði fært rök fyrir synjuninni og ekki væri hægt að færa frekari rök fyrir málinu í Hæstarétti. Þá taldi hún að umdeild grein í skipulags- og byggingarlögum útilokaði ekki að sveitarfélög fengju hluta kostnaðar við skipulagsgerð frá þriðja aðila.

Hjalti Steinþórsson, hæstaréttarlögmaður og forstöðumaður úrskurðarnefnda skipulags- og byggingarmála, lagði hins vegar til að málinu yrði áfrýjað. Hann taldi niðurstöðu héraðsdóms hæpna. Rökin væru sú að af því það væri ekki sérstaklega bannað að framkvæmdaaðili greiddi kostnað við gerð aðalskipulags yrði að telja það heimilt. Hann taldi þessa túlkun héraðsdóms ótæka. Svandís Svavarsdóttir ákvað síðar að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar, þar sem hún tapaði málinu. Sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi bíða nú staðfestingar ráðherra á umræddu aðalskipulagi.