Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðherra lagði tillögu fyrir samninganefndir

16.02.2017 - 00:04
Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson / RÚV
Samninganefndir sjómanna og útvegsmanna gengu á fund Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í Sjávarútvegshúsinu eftir að hafa setið á fundum í Karphúsinu stóran hluta dags. Samningamenn voru þöglir sem gröfin yfir daginn og það breyttist ekki eftir fundinn með ráðherra. Þorgerður Katrín sagði að fundi loknum að fundarmenn hefðu farið yfir stöðuna og skipst á skoðunum.

„Þeir voru einfaldlega að upplýsa mig nákvæmlega um stöðuna. Svo voru skoðanaskipti um eitt og annað," sagði Þorgerður Katrín að fundi loknum. „Meðal annars um fæðis- og dagpeninga. Ég lagði fram tillögu meðal annars um heildstæða nálgun og greiningu, og myndum fara hratt í það að skoða fæðis- og dagpeninga á almennum vinnumarkaði með tilliti til skattaívilnana. Við sjáum þá hvernig staðan er og hægt að bregðast við óskum sjómanna. Það er það sem við erum tilbúin til þess að gera,“ sagði ráðherra og kvað samninganefndirnar ætla að skoða þá tillögu.

Þorgerður Katrín  sagðist enn bera mikið traust til samninganefndanna um að þeim tækist að leysa deiluna og ljúka verkfallinu sem nú hefur staðið í rúma tvo mánuði. Hún benti á að loðnuvertíð stæði næstu þrjár til fjórar vikurnar og því mikið í húfi.

Að ofan má sjá viðtal Stefáns Aðalsteins Drengssonar við ráðherra fyrir framan Sjávarútvegshúsið að fundi loknum.