Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ráðherra fram að ríkisráðsfundi

22.11.2014 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Hanna Birna Kristjánsdóttir gegnir lögformlega stöðu innanríkisráðherra þangað til á ríkisráðsfundi þar sem nýr ráðherra verður skipaður í hennar stað. Óvíst er hvenær það gerist. Ekki er hefð fyrir því að staðgengill gegni starfi ráðherra tímabundið nema hann fari til útlanda eða veikist alvarlega.

Hann Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra baðst lausnar frá embætti innanríkisráðherra á fundi með forsætisráðherra í fyrradag, og tilkynnti síðan um afsögnina í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er hún þó ekki laus undan skyldum sínum og ábyrgð fyrr en formlega hefur verið skipt um ráðherra. Það gerist samkvæmt hefð á ríkisráðsfundi. Forsætisráðherra einn hefur vald til að gera tillögu til forseta Ísland um að ráðherra fái lausn og forsætisráðherra leggur jafnramt til við forsetann að haldinn verði ríkisráðsfundur. Þegar ráðherraskiptin fara fram gefur forsetinn svo út nýjan forsetaúrskurð um skiptingu ráðuneyta. Lögformlega er Hanna Birna því innanríkisráðherra eitthvað áfram. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu er staðgengill samkvæmt venju aðeins kallaður til ef ráðherra fer til útlanda eða veikist alvarlega.

Óvíst er hvenær ríkisráðsfundurinn verður haldinn en líklegt er að fyrsta skref verði að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins verði kallaður saman, enda situr ráðherra í umboði þingflokksins. Einar K. Guðfinnsson, núverandi forseti Alþingis, hefur verið orðaður við embættið. Ekki náðist í formann Sjálfstæðisflokksins, þingflokksformann eða varaformann þingflokksins fyrir fréttir og því er ekki ljóst hvenær þingflokksfundurinn verður haldinn.