Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ráðgjöf við afnám hafta talin feitur biti

23.06.2014 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Leit stjórnvalda að erlendum ráðgjöfum til að aðstoða við losun gjaldeyrishafta hefur gengið vel, samkvæmt heimildum fréttastofu. Ætlunin að ráðgjafarnir hafi beina aðkomu að því að afnema gjaldeyrishöftin.

Fjórir íslenskir embættismenn fóru til Lundúna í síðustu viku og ræddu við tíu til tólf fyrirtæki á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði. Samkvæmt heimildum fréttastofu reyndist gríðarlegur áhugi meðal fyrirtækjanna, sem telja verkefnið stórt, og feitan bita fyrir þann sem hreppir það.

Sum fyrirtækjanna hafa aðstoðað stjórnvöld í Grikklandi í efnahagskreppunni þar.

Embættismennirnir fjórir skila tillögum sínum til ráðherra og seðlabankastjóra í dag eða á morgun, og ætlunin er að semja um aðkomu ráðgjafanna á allra næstu vikum. Vonir standa til þess að vinna ráðgjafanna og íslenskra sérfræðinga við að móta áætlun um losun gjaldeyrishafta hefjist strax í næsta mánuði.