Ráðgjöf um framhald loðnuveiða í næstu viku

10.02.2017 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Nú er að ljúka leiðangri Hafrannsóknastofnunar við loðnurannsóknir sem staðið hefur undanfarna viku. Þrjú skip hafa tekið þátt í rannsóknunum. Norsk loðnuskip veiða nú loðnu bæði fyrir austan og norðan land.

Áhöfn Bjarna Sæmundssonar hefur þegar skilað af sér rannsóknargögnum og Polar Amaroq er á landleið til Neskaupstaðar. Árni Friðriksson er enn á miðunum, en áætlað er að hann komi í land annað kvöld.

Vonandi hægt að gefa út ráðgjöf um miðja næstu viku

Þorsteinn Sigurðsson, sérfræðingur á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, segir að farið verði að vinna úr rannsóknargögnum þegar Árni komi í land. Útreikningar og frágangur taki nokkra daga, en hann vonast til að hægt verði að gefa út ráðgjöf um framhald loðnuveiða um miðja næstu viku.

Loðna austur úr Langanesi alveg vestur á firði

Þorsteinn segir erfitt að bera saman leiðangurinn núna við rannsóknirnar í janúar. Þá hafi loðnan verið á afmörkuðu svæði vestan við Kolbeinseyjarhrygg, en nú hafi sést loðna austur úr Langanesi og alveg vestur á firði. Til dæmis sé hluti norsku loðnuskipanna nú á veiðum grunnt norður af landinu, úti af Fljótagrunni. Þeir fari þangað til að losna við átu sem sé í loðunni fyrir austan land. Þó séu einhverjir þar á veiðum líka, en þeir hafi séð loðnutorfur grunnt með öllum Austfjörðum.

Gæti verið umfram það sem var í janúar

„Þegar leiðangursmenn voru úti fyrir miðju Norðurlandi í byrjun þessa leiðangurs, var tilfinning þeirra sú að það væri að minnsta kosti ekki minna á ferðinni en mælt var í janúar. Þess vegna vildu þeir klára mælinguna alveg vestur úr," segir Þorsteinn. "Og án þess að lagt sé á það tölulegt mat, gæti verið þarna loðna sem er umfram það sem var í janúar."
 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi