Raddir vorsins þagna

Mynd með færslu
 Mynd:

Raddir vorsins þagna

28.05.2014 - 18:01
Skordýraeitrið DDT þótti mikið undraefni þegar farið var að vinna það á fimmta áratug síðustu aldar. Bandarísk stjórnvöld höfðu á þeim tíma miklar áætlanir um stórfellda noktun þess og töldu að efnið myndi leysa flest vandamál samfara hvers kyns ræktun.

Dýrafræðingurinn Rachel Carson sem hafði skrifað fræðibækur og flutt útvarpserindi um fræði sín fékk mikinn áhuga á að kynna sér DDT og áhrif þess á náttúruna. Rannsóknir hennar á þessu skordýraeitri og öðrum varnarefnum náðu hámarki með útkomu bókarinnar Raddir vorsins þagna haustið 1962, bókar sem olli straumhvörfum í umhverfisumræðunni.

Um þessar mundir eru liðin 107 ár frá fæðingu Carson og af því tilefni fjallar pistill Stefáns Gíslasonar um störf hennar og bókina Raddir vorsins þagna. 

Sjónmál miðvikudaginn 28. maí 2014

---------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns - Rachel Carson 107 ára

Í gær voru liðin 107 ár frá fæðingu Rachel Carson, eða Rakelar Carson eins og ég kýs að kalla hana. Líklega er á fáa hallað þótt því sé haldið fram að Rakel hafi haft meiri áhrif á umhverfisumræðuna í heiminum á síðustu öld en nokkur annar einstaklingur, en flestir virðast sammála um það að bók hennar, Raddir vorsins þagna, sem kom út árið 1962, hafi valdið mikilvægum þáttaskilum í þeirri umræðu.

Rakel Carson fæddist 27. maí 1907 í litlum sveitabæ í grennd við Springdale í Pennsylvaníu. Hún byrjaði snemma að skrifa sögur og var ekki nema 11 ára gömul þegar sú fyrsta var birt opinberlega í St. Nicholas tímaritinu. Á háskólaárunum lagði Rakel fyrst stund á enskar bókmenntir en skipti svo yfir í líffræði og útskrifaðist með mastersgráðu í dýrafræði frá Johns Hopkins háskólanum árið 1932. Þrátt fyrir erfiðar heimilisaðstæður var hún fljótlega ráðin til Fiskimálastofnunar Bandaríkjanna til að skrifa stutta útvarpspistla um lífið í sjónum og árið 1936 var hún komin í fullt starf sem sjávarlíffræðingur hjá stofnuninni.

Pistlaskrif Rakelar þróuðust fljótlega yfir í stærri ritverk um sjávarlíffræði og árið 1941 kom fyrsta bókin hennar út undir yfirskriftinni Under the Sea-Wind. Sú bók fékk mjög góða dóma en seldist ekki að sama skapi vel. Næstu ár fylgdu nokkrar ritgerðir um svipuð efni í kjölfarið, en árið 1951 náði Rakel virkilega að festa sig í sessi sem fræðibókahöfundur, en þá kom út yfirlitsritið The Sea Around Us eða Sjórinn í kringum okkur. Þessi bók var mánuðum saman á lista yfir söluhæstu bækur vestanhafs og í kjölfarið gat Rakel snúið sér alfarið að skriftum.

Árið 1945 heyrði Rakel Carson fyrst af skordýraeitrinu DDT, sem þótti mikið undraefni sem líklegt væri til að losa mannkynið við flest þau vandamál og leiðindi sem skordýr höfðu valdið fram til þess tíma. Rakel vildi gjarnan fjalla um þetta í skrifum sínum, en það var ekki fyrr en undir lok sjötta áratugarins sem hún náði að fara betur ofan í saumana á þeim málum. Um það leyti voru stjórnvöld í Bandaríkjunum komin með miklar áætlanir um að beita skordýraeitri í stórum stíl, m.a. til að útrýma eldmaurum. Eftir það snerust rannsóknir og skrif Rakelar öðru fremur um hættuna sem fylgt gæti óhóflegri notkun varnarefna. Þetta ferli náði svo hámarki með útkomu bókarinnar The Silent Spring eða Raddir vorsins þagna 27. september 1962.

Boðskapur Raddir vorsins þagna var í stuttu máli sá að með mikilli notkun á DDT og öðrum varnarefnum væru menn ekki bara að drepa óæskileg skordýr heldur væri líka verið að þagga niður í öðrum lífverum, þar með töldum fuglum. Afleiðingarnar gætu þannig orðið allt aðrar og miklu víðtækari en að var stefnt. Flestir virðast sammála um að þessi bók hafi átt mjög stóran þátt í að vekja almenning til umhugsunar um áhrif mannsins á umhverfi sitt og um nauðsyn þess að stíga varlega til jarðar í inngripum mannsins í náttúruna. Hins vegar brást efnaiðnaðurinn við af fádæma hörku og gerði allt sem mögulegt var til að gera bókina og höfund hennar tortryggileg. Þessi herferð byrjaði reyndar áður en bókin kom út með tilheyrandi hótunum um kærumál og skaðabótakröfur. Eisenhower forseti tók jafnvel þátt í aðförinni með því að benda á að þar sem Rakel væri ógift, þrátt fyrir að vera nokkuð hugguleg, væri hún líklega kommúnisti. Um það bil ári eftir útkomu bókarinnar tók þó öldurnar að lægja, enda tókst ekki að sýna fram á veilur í vísindalegri röksemdafærslu Rakelar. Sjálf var hún orðin veik af krabbameini og fékk ekki tækifæri til að upplifa hversu mikil áhrif bókin hafði í reynd. Rakel dó í apríl 1964, aðeins tæplega 57 ára að aldri. 

Mér finnst ekki úr vegi að fagna fæðingardegi Rakelar Carson með því að velta því fyrir sér hvort við höfum lært eitthvað af boðskap hennar um að hollast sé að umgangast gangverk náttúrunnar af varúð. Líklega höfum við lært heilmikið, því að umhverfisumræðan tók vissulega nýja stefnu í kjölfar útkomu bókarinnar og eftir það höfum við vissulega mjakast fram á veginn í skilningi okkar og auðmýkt. Hins vegar er dæmið um DDT óþægilega líkt mörgum öðrum dæmum sem við erum að fást við í samtímanum. Þarna kemur sem sagt fram ný tækni eða nýtt efni sem leysir ákveðinn vanda með skjótum og hagkvæmum hætti og hefur í þokkabót litlar sem engar aukaverkanir að sögn þeirra sem hafa hag af því að koma tækninni eða efninu á markað. Flest þau efni sem hafa verið til umfjöllunar í umhverfispistlum Sjónmáls síðustu mánuði, hvort sem þau heita þalöt, BPA, perflúorkolefni, tríklósan, Roundup eða eitthvað annað, eiga það nefnilega sameiginlegt að hafa verið talin tiltölulega skaðlaus þegar þau komu fyrst á markað, eða með öðrum orðum að hafa verið markaðssett áður en búið var að sanna skaðleysi þeirra. Síðan hefur annað komið á daginn. Efnin hafa reynst þrávirk og eru farin að finnast í lífríkinu og í fæðukeðjunni þar sem þeim var alls ekki ætlað að vera.

Í þessu sambandi er ástæða til að rifja aftur upp skýrsluna „Late Lessons from Early Warnings“ eða „Seint er lært þótt árla sé aðvarað“, sem Umhverfisstofnun Evrópu gaf út fyrir rúmu ári og minnst var á hér í Sjónmáli fyrir skemmstu. Þar er rýnt í 88 tilvik frá síðustu áratugum þar sem ný efni eða ný tækni hafði verið sett á markað þrátt fyrir varnaðarorð efasemdarmanna um mögulega skaðsemi. Öll þessi tilvik áttu það sameiginlegt að varnaðarorðin þóttu ástæðulaus. Aðeins í fjórum tilvikum af þessum 88 höfðu talsmenn varúðarinnar rangt fyrir sér. Oftar en ekki hafa menn hunsað vísbendingar um hættu þar til ekki var lengur hægt að komast hjá skaðlegum áhrifum á heilsu og umhverfi. Í skýrslunni eru 20 slík tilvik rakin ítarlega, þ.á.m. dæmið um DDT og viðvaranir Rakelar Carson í því sambandi. Í skýrslunni er líka minnst á nokkur dæmi úr samtímanum, þar sem ný tækni er að ryðja sér til rúms án þess að fyrir liggi nægjanlegar staðfestingar á skaðleysi hennar. Þar á sagan eftir að leiða í ljós hvort varnaðarorðin hafi verið ástæðulaus eður ei. Í skýrslunni er fjallað um öryggi kjarnorkuvera, erfðabreyttar lífverur, ágengar tegundir, nanótækni og hugsanleg heilsufarsáhrif farsímanotkunar sem dæmi af þessu tagi.

Sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig. Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það líklega ekki satt. Það hefur ekki bara gilt um skaðleysi DDT, heldur einnig um margt annað. Spurningin er sú hvort við munum halda áfram að missa af vegvísunum inn á farsælli leiðir, eins og það er orðað í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu. Í þessu sambandi er hollt að minnast orða Rakelar Carson: „Valið er okkar, þegar allt kemur til alls“.