Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðast þurfi í stórsókn í menntamálum

13.10.2018 - 19:48
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ráðast þarf í stórsókn í menntamálum og hlúa betur að ungu fólki, segir formaður Samfylkingarinnar. Rætt var um lausnir á húsnæðisvandanum á flokksstjórnarfundi í dag.

Meginumræða flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar á Hótel Reykjavík Natura í dag var um stjórnarskrána og húsnæðisvandann. Formaður flokksins fjallaði í ræðu sinni um helstu áskoranir og lausnir jafnaðarmanna á þeim.

„Hvernig við getum hér innanlands og líka í alþjóðlegri samvinnu tekist á við þessar stærstu ógnir mannkyns sem eru ójöfnuður, ófriður og loftslagsógnin,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. 

Hvernig á að takast á við þetta?

„Ja til skemmri tíma þá þurfum við náttúrulega að ráðast í grundvallarbreytingar á samfélaginu, á kerfunum okkar, til þess að tryggja öllum jöfn skilyrði. Til lengri tíma þurfum við að grípa til miklu róttækari aðgerða. Við þurfum að efla menntun, nýsköpun og fjárfesta í hugmyndaauðgi. En við þurfum líka að skoða hvernig samneyslan verður byggð upp til þess að tryggja að ávinningur af þessum tæknibreytingum lendi ekki hjá fámennum hópi. Ef við hugum ekki að þessum breytingum sem eru að koma þá mun ójöfnuður aukast og það viljum við ekki sjá. Það fyrsta sem við þurfum að gera er að ráðast í algjöra stórsókn í menntamálum, ekki þá sem nú er boðuð af ríkisstjórninni þar sem er verið að láta aðeins meira í þennan hlut og pínulítið meira í hinn. Heldur að endurhugsa þetta og gera þetta að stóru fjárfestingunni. Ungt fólk í dag hefur setið algerlega eftir þegar kemur að eftirhrunsárunum. Það er engin eignamyndun, þau eru á óöruggum og slæmum leigumarkaði. Þetta er fólkið sem mun bera uppi samfélagið næstu áratugina og við þurfum að fjárfesta betur í því,“ segir Logi.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV