Ráðamenn og gildi siðareglna

Mynd: Anton Brink / Ruv.is

Ráðamenn og gildi siðareglna

11.05.2015 - 15:08

Höfundar

Henry Alexander Henrysson verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun telur nauðsyn á siðareglum fyrir þingmenn og ráðherra , þrátt fyrir að til séu stjórnsýslulög og ýmsar reglur um þessi störf. Siðareglur þurfi ekki alls staðar, en þær séu mikilvægar þegar tiltekin störf séu annars vegar.

Þetta eigi við þegar unnið er í miklu návígi við fólk, eins og á við um kennara og hjúkrunarfræðinga, eða þegar unnið er í umboði almennings. Siðareglur geti þá hjálpað til að forma eða koma reglu á umræður um siðferðilegu álitamál, hvernig skuli bera sig að þegar tiltekinn vandi kemur upp. Reglurnar eigi að hvetja til umræðu, setja viðmið.

Á morgun þriðjudag stendur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir hádegismálstofu um siðareglur fyrir þingmenn og ráðherra. Þar talar auk annarra Henry Alexander.  Hann ræðir málið í Samfélaginu í dag, og segir að siðareglur fyrir þingmenn og ráðherra þurfi ekki að vera íþyngjandi, heldur þvert á móti. "Það sem siðareglur gera einmitt fyrir þingmenn og ráðherra...þær vernda líka þingmenn og ráðherra að vissu leyti. ... Reglur geta komið í veg fyrir alls konar upphrópanir úti í samfélaginu."  Upphrópanir sem geti verið út úr kortinu eins og Henry Alexander orðar það. Og þetta getur líka snúið á hinn veginn. Að eðlilegum spurningum almennings sé svarað með útúrsnúningi af ráðamönnum. Siðareglurnar geti þannig hjálpað til við að koma á eðlilegri umræðu milli kjósenda og kjörinna fulltrúa.