Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rabbínar mótmæla umskurðar-frumvarpi Silju

02.02.2018 - 21:51
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Yfirrabbínar Danmerkur og Óslóar, bræðurnir Yair Melchior og Yoav Melchior, hvetja gyðinga í Evrópu til að láta í sér heyra og mótmæla frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna um bann við umskurði drengja. Þeir óttast að frumvarpið geti sett hættulegt fordæmi fyrir önnur lönd.

Frumvarpið var lagt fram á í vikunni. Samkvæmt því yrði umskurður drengja, nema af heilsufarsástæðum, bannaður og allt að sex ára fangelsi lægi við brotum gegn slíkri löggjöf.

Í frumvarpinu segir að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum en slíkur réttur geti aldrei gengið framar rétti barnsins.   Frumvarpið hefur vakið nokkra athygli í Ísrael en umskurður drengja tíðkast bæði í gyðingdóm og íslam

Tveir rabbínar í Danmörku og Ósló skrifuðu bréf til Evrópska rabbínaráðsins eftir að fréttir bárust af íslenska frumvarpinu. Þar hvetja þeir til þess að íslensk stjórnvöld verði beitt þrýstingi til að koma í veg fyrir samþykki þess. 

Í frétt Ynetnews.com er vitnað í bréfið sem rabbínarnir sendu. Þar kemur meðal annars fram að enginn rabbíni sé starfandi á Íslandi, gyðingar og múslimar séu frekar fáir og því sé ekki líklegt að frumvarpið mæti einhverri andstöðu. „Aðeins alþjóðlegur þrýstingur getur komið að gagni.“

Þá er varað við því að verði frumvarpið samþykkt geti það sett hættulegt fordæmi. Umskurður drengja sé hvergi bannaður en danska þingið hafi svipað frumvarp til umræðu.

Evrópska rabbínaráðið sendi í framhaldinu frá sér ályktun þar sem segir að umskurður drengja sé stór hluti af gyðingatrú og engin stjórnvöld geti bannað gyðingum að framkvæma þessa trúarathöfn. 

Pinchas Goldschmidt, formaður ráðsins, segir enn fremur að þótt samfélag gyðinga á Íslandi sé fámennt þá geti löggjöf af þessu tagi sett hættulegt fordæmi. „Við hvetjum þingmenn til að hafna þessari ömurlegu löggjöf og halda áfram stuðningi sínum við þá sem eru gyðingatrúar án takmarkana.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV