R-leiðin líklegust til að verða ofan á

18.12.2018 - 21:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - RÚV
„Ég held að allir vilji taka ákvörðun sem fyrst þannig að það verði hægt að hefja undirbúning og svo framkvæmdir við Vestfjarðaveg,“ segir Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri í Reykhólahreppi að loknum íbúafundi þar sem kynnt var valkostaskýrsla og þær fjórar leiðir sem þar eru vegnar og metnar fyrir vegstæði Vestfjarðavegs. Aðspurður telur Tryggvi að R-leiðin verði líklegast ofan á þegar sveitarstjórnin tekur ákvörðun í janúar.

Utanbæjarfólk á fundinum

Tryggvi segir að fundurinn hafi gengið vel. „Þetta var góður og málefnalegur fundur og ekki skítkast í nokkrum manni. Ég held að menn hafi bara verið býsna ánægðir með hann.“ Skiptar skoðanir hafi verið á fundinum og þangað hafi mætt utanbæjarmenn annars staðar að af Vestfjörðum sem gagnrýndu R-leiðina eða töldu Þ-H leiðina vænlegri en hún liggur meðal annars um Teigsskóg. Þá leið hefur Vegagerðin viljað fara en sveitarstjórnin hefur haft augastað á R-leiðinni. Fulltrúar frá Vegagerðinni voru á fundinum en blönduðu sér ekki í umræðuna, að sögn Tryggva. 

„Sérstaklega virðist fólk óttast að R-leiðin taki lengri tíma,“ segir Tryggvi en talað hefur verið um að sú leið gæti tafið framkvæmdir við Vestfjarðaveg um nokkur ár til viðbótar. Tryggvi telur hins vegar að tafirnar þyrftu ekki að vera meira en ár. Kærumál geti svo valdið töfum. 

Ekkert ákveðið um íbúakosningu

Tryggvi segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort íbúunum verði gefinn kostur á að greiða atkvæði milli kostanna í íbúakosningu. Til álita komi að gera skoðanakönnun til að kanna vilja íbúa. „Sveitarstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um það enn sem komið er. Næsti sveitarstjórnarfundur er 16.janúar og ég held að það væri farsælt að klára málið þá til að nýta tímann og koma þessu af stað.“ Líklegra en ekki sé að R-leiðin verði ofan á. „Sveitarstjórnin er að hallast frekar að henni eftir að hafa vegið og metið þau gögn sem liggja fyrir,“ segir Tryggvi. 

Umhverfissjónarmið hafi einnig áhrif

Tryggvi segir að Teigsskógur sé ekki það eina sem valdi óvinsældum Þ-H leiðarinnar. „Sumir eru á móti henni af umhverfissjónarmiðum. Þetta er ekki bara spursmál um Teigsskóg heldur landslagsheildina sem tekur yfir nesin og minni Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Aðrir vilja R-leiðina frekar á samfélagslegum forsendum og vilja tengja þéttbýlið á Reykhólum betur við þjóðvegakerfið. Sumir horfa til samgangna innan sveitarfélagsins, því það getur munað verulega miklu þegar farið er með börn í skóla hvaða leið er farin.“ 

Tryggvi segir að stefnt sé að fundi sveitarstjórnarinnar með Vegagerðinni snemma í janúar, líklega níunda eða tíunda janúar. „Þar sem sveitarstjórnin og Vegagerðin fara sameiginlega yfir málið.“ Vegagerðin stefnir svo á að halda opinn kynningarfund fyrir íbúana í kjölfarið.

Aðspurður hvort málin séu farin að skýrast segir Tryggvi að hann telji að allir vilji taka ákvörðun sem fyrst. „Þannig að það sé hægt að hefja undirbúning og svo framkvæmdir við Vestfjarðaveg.“

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi