Puzzy Patrol blæs til tónleika hip hop-kvenna

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / Canon Mark 1D X

Puzzy Patrol blæs til tónleika hip hop-kvenna

15.01.2018 - 14:30

Höfundar

Viðburðarfyrirtækið Puzzy Patrol blæs laugardaginn 20. janúar til stórtónleika þar sem eingöngu kvenrapparar koma fram, auk þess sem málþing um stöðu kvenna innan hip hop-menningarinnar verður haldið fyrr um daginn.

Á tónleikunum koma fram Reykjavíkurdætur, Cell 7, Alvia, Fever Dream, Krakk & Spaghettí og Sigga Ey. Puzzy Patrol er hugarfóstur vinkvennanna Ingibjargar Björnsdóttur og Valgerðar Arnardóttur. „Þetta hófst allt haustið 2016 þegar ég var að þeyta skífum á kaffi Vínyl, sama kvöld og Donald Trump var settur í embætti. Ég var búin að gera lagalista fyrir kvöldið með femínísku hip hop-i,“ segir Valgerður í samtali við Lestina. Þá hafi hún verið búin að búa til bol með ketti á og áletruninni „Pussy grabs back“ sem var vísun í ummæli Donalds Trump um að grípa í kynfæri kvenna. Á Vínyl þetta kvöld hafi verið tvær bandarískur konur sem þökkuðu henni fyrir að sýna þeim stuðning, þær hafi viljað ferðast eins langt frá Bandaríkjunum og þær kæmust fyrir innsetninguna því Trump væri ekki þeirra forseti.

Alvia er ein þeirra rappkvenna sem fram koma á stórtónleikunum í Gamla bíói.

„Þá datt mér í hug þessi vettvangur til að sameina tvennt, femínisma og tónlist. Þar sem ég er hip hop-aðdáandi veit ég að konur innan þess finna fyrir talsverðu kynjamisrétti, hafa verið hlutgerðar mikið, þetta er náttúrulega karlstýrður bransi. Þá datt mér í hug að stofna Puzzy Patrol,“ segir Valgerður. Hún hafi því næst haft samband við Ingibjörgu sem hafði bakgrunn í viðburðarstjórnun og þá hafi boltinn byrjað að rúlla. Á svipuðum tíma hitti Valgerður Laufey Ólafsdóttur vinkonu sína sem vann að BA-ritgerð um femínisma í hip hop-i og þannig kom hugmyndin að málþinginu sem Laufey mun stýra á tónleikadeginum. 

Nýjasta myndband Reykjavíkurdætra.

Stelpurnar segja mikinn stuðning við kvennabaráttu um þessir mundir og metoo-hreyfingin hafið blásið þeim byr undir báða vængi. „Það er allur heimurinn sem stendur saman, og það er gaman að vera lifandi og upplifa þetta. Geta í framtíðinni sagt „Ég var þarna“, svona eins og á kvennafrídeginum 1974,“ segir Ingibjörg. Þá gagnrýna þær að oft sé pressa á tónlistarkonum að yrkja bara um femínisma þegar konum liggi margt annað á hjarta.

Cell 7 er líklega fyrsti íslenski kvenrapparinn sem eitthvað ber á en hún var meðlimur í hljómsveitinni Subterranean á 10. áratugnum.

„Svo er konum í tónlist oft att upp á móti hvor annarri eins og búið til eitthvað fjölmiðlafár í kringum það, mýtan um að konur séu konum verstar,“ segir Ingibjörg. Það sé hins vegar algjört rugl. „Þetta er eitthvað sem er búið til af karlmönnum sem stjórna bransanum til að fá umfjöllun. Eins og á þessum viðburði eru allar tilbúnar að taka þátt og vera vinir, það er ekkert stríð í gangi á milli neinna.“ Þær segja að þótt Puzzy Patrol styðji við konur í listum sé lokatakmarkið að útrýma skiptingunni milli listar og „kvennalistar“. „Við í Puzzy Patrol viljum koma konum á framfæri svo þær verði partur af listaheiminum. Þær eru bara manneskjur að gera list.“

Stórtónleikar hip hop-kvenna verða haldnir í Gamla Bíói 20. janúar frá klukkan 20:00 til 01:00. Fram koma Reykjavíkurdætur, Cell 7, Alvia, Fever Dream, Krakk & Spaghettí og Sigga Ey, og plötusnældan De La Rosa þeytir skífum milli atriða. Málþing um stöðu hip hops og femínisma fer fram á sama stað fyrr um daginn frá 15:00-17:00.

Tengdar fréttir

Tónlist

Reykjavíkurdætur spyrja hvað málið sé

Tónlist

„Það er svakaleg elíta hérna“

Tónlist

Þessi tyggjótík er vel töff!

Tónlist

„Reykjavíkurdætur stórkostlegar“