Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pútín segir yfirlýsingu G7 innantómt þvaður

10.06.2018 - 08:12
Erlent · G7 · Rússland
epa06798065 Russian President Vladimir Putin attends a press conference following the 18th Shanghai Cooperation Organization (SCO) Summit in Qingdao city, Shandong province, China, 10 June 2018. The 18th Shanghai Cooperation Organization Summit is held in
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vladimír Pútín Rússlandsforseti kveðst reiðubúinn að eiga fund með Donald Trump, starfsbróður sínum í Bandaríkjunum, hvenær sem stjórnvöld í Washington eru tilbúin. Þessu greindi Pútín frá við blaðamenn í Kína þar sem hann er í opinberri heimsókn.

Pútín notaði tækifærið og sagði gagnrýni G7 ríkjanna á Rússland vera innantómt þvaður. Hann sagði tíma til kominn að hætta þessu blaðri og taka til hendinni við alvöru mál sem þarfnast raunverulegrar samstöðu, að sögn AFP fréttastofunnar. Þá sagði hann ríkin ekki hafa neinar haldbærar sannanir fyrir því að Rússar hafi staðið fyrir því að eitrað var fyrir rússneska njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans í Bretlandi í mars.

Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoganna voru Rússar hvattir til að láta af tilraunum sínum til að grafa undan lýðræðinu. Í yfirlýsingunni var jafnframt tekið undir ásakanir Breta um að Rússar hefðu staðið á bakvið eiturefnaárásina á Skripal-feðginin í Salsbury. Trump hafði viðrað þá hugmynd við hina leiðtogana að Rússland ætti afturkvæmt í hóp ríkjanna. Því var tekið fálega og hvergi vikið að því í yfirlýsingunni.

Pútín sagði blaðamönnum í morgun að Rússland hafi í raun aldrei yfirgefið G8. Leiðtogar hinna ríkjanna hafi á sínum tíma neitað því að koma til Rússlands á ákveðnum ástæðum. Hann segist glaður taka á móti öllum í Moskvu.