Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Pútín hótar aðgerðum vegna skulda Úkraínu

10.04.2014 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Vladimir Pútín, Rússlandsforseti segir að skuldir stjórnvalda í Úkraínu vegna gass frá Rússlandi gætu haft áhrif á flutning gass frá Rússlandi til Evrópu. Þetta kemur fram í bréfi sem Pútín hefur skrifað leiðtogum 18 þjóða í Evrópusambandinu.

Pútin sagði í bréfinu að þörf væri á sérstökum aðgerðum vegna þessarar skuldar, en tók þó ekki fram hvaða aðgerðir það gætu verið. Skuldir Úkraínumanna fyrir gas frá Rússlandi nema nú meira en 2 milljörðum bandaríkjadala (meira en 223 milljörðum króna) og Rússar hafa á undanförnum vikum afnumið afslætti sem verið hafa í boði fyrir gas til Úkraínu. Einn þriðji þess gass sem notað er í Vestur-Evrópu kemur frá Rússlandi, og stór hluti þess gass kemur í gegnum leiðslur sem liggja í gegnum Úkraínu. 

Greiði stjórnvöld í Úkraínu ekki þessa skuld gæti Gazprom þurft að grípa til þess að krefjast fyrirframgreiðslu fyrir afhendingu á gasi, eða hætta að afhenda það, segir í bréfi Pútíns. Hann sagði ennfremur að rússnesk stjórnvöld væru tilbúiin að taka þátt í aðgerðum til að koma efnahag Úkraínu á rétt ról, en aðeins á jafnræðisgrundvelli með Evrópusambandinu. 

Deilur Úkraínumanna og Rússa hafa áður leitt til þess að röskun varð á flutningi gass til Evrópu og Rússar hafa verið sakaðir um að nota orkusölu til Úkraínu í pólitískum tilgangi.