Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Púertó Ríkó rafmagnslaus með öllu

19.04.2018 - 03:04
epa06678372 Employees of the Electric Power Authority of Puerto Rico take advantage of a general blackout to repair a damaged line in San Juan, Puerto Rico, 18 April 2018. Tourist sites and shopping centers, including Plaza Las Americas in San Juan,
Fátt er svo með öllu illt - starfsmenn rafveitunnar nota tækifærið í allsherjar rafmagnsleysinu til að gera við bilaðan rafmagnskapal í höfuðborginni San Juan. Mynd: EPA-EFE - EFE
Eyríkið Púertó Ríkó er rafmagnslaust og verður það að líkindum áfram næsta sólarhringinn og jafnvel lengur. Um 3.4 milljónir manna búa á Púertó Ríkó, sem varð illa úti í hamförunum sem fylgdu fellibylnum Maríu í september síðastliðnum. Þá fór rafmagn af stórum hluta eyjunnar, sumstaðar hefur enn ekki tekist að koma rafmagni á að fullu og rafmagnstruflanir hafa verið viðvarandi víðast hvar allar götur síðan.

Fyrir viku, 12. apríl, fór rafmagn af stórum hluta Púertó Ríkó þegar tré féll á háspennulínu, en það hefur þó ekki gerst fyrr en nú, að rafmagn hafi farið af allri eyjunni eins og hún leggur sig. Viðgerðir og endurbætur á dreifikerfi rafmagns hafa staðið yfir síðan í haust, en gengið hægt. Í dag gerðist það svo að vinnuvél á vegum verktaka, sem var að fjarlægja rafmagnsmastur sem hrundi í fellibylnum, sleit háspennustreng með þessum afleiðingum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV