Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Prófuðu „risastórt“ eldflaugavarnarkerfi

01.11.2019 - 06:50
epa07963507 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows the test-fire of a super-large multiple rocket launcher at an unknown location, 31 October 2019.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Stjórnvöld í Norður Kóreu staðfestu í morgun að herinn hefði prófað nýtt og „risastórt" eldflaugavarnarkerfi úr eigin smiðju í gær. Tilraunin hefði gengið að óskum og sýnt að Norður-Kóreuher sé þess albúinn að bregðast við skyndiárásum óvina sinna og eyða hverjum þeim flugskeytum, sem skotið verði að fósturjörðinni.

Yfirstjórn Suður-Kóreuhers tilkynnti skömmu eftir tilraunaskot nágranna sinna í gær, að „tvö óþekkt flugskeyti“ hefðu greinst á ratsjám þar sem þau þutu frá austurströnd Norður Kóreu á haf út og japanska varnarmálaráðuneytið lýsti grunsemdum sínum um að Norður-Kóreumenn hefðu verið að gera tilraunir með skammdrægar eldflaugar, enn einu sinni.

Slíkar tilraunir eru í trássi við ítrekaðar ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær leggja meðal annars blátt bann við öllum tilraunum með eldflaugar sem borið geta hefðbundnar sprengihleðslur, efna- og sýklavopn og, síðast en ekki síst, kjarnaodda.

Tilraunaskotunum var fagnað í norður-kóreskum fjölmiðlum og sagt að þær sýndu og sönnuðu að eldflaugavarnarkerfið „virkaði fullkomlega.“ 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV