Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Prófessor telur léttlestir óraunhæfar

10.11.2013 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Léttlestakerfi í Reykjavík er sóun á fjármunum þar sem ljóst sé að slíkt kerfi geti aldrei reynst hagkvæmt hér. Þetta segir Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgöngufræðum við Háskóla Íslands. Aðstæður séu allt aðrar hér en í nágrannalöndunum þar sem slíkt kerfi virki vel.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur er rætt um að kanna eigi kosti léttlestakerfis í Reykjavík, sem yrði svipað því sem rekið er í nágrannalöndunum, til dæmis Danmörku og Noregi. Fram kom í fréttum RÚV í vikunni í máli sviðsstjóra skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að skoðuð yrði hagkvæmni slíks kerfis.

Guðmundur Freyr telur þetta slæman kost. „Mér finnst þetta vera stórkostleg eyðsla á skattfé Íslendinga,“ segir hann. Þetta eigi bæði við þessa rannsókn og ítrekaðar rannsóknir. „Það er nú þegar búið að setja margar milljónir í að rannsaka hagkvæmni léttlesta. Þær eru augljóslega óhagkvæmar og allar rannsóknir hafa sýnt það.“

Enginn járnbrautaiðnaður hér

Guðmundur Freyr bendir á að enginn járnbrautaiðnaður sé fyrir hér, ólíkt nágrannalöndunum. „Stofnfjárfestingin yrði geysileg, að flytja þetta inn, byggja teina, flytja inn vagna, byggja stjórnstöð og þjálfa allt starfsfólkið og allt þess háttar,“ segir hann. 

Betra sé að nota þessa fjármuni til að bæta þær almenningssamgöngur sem eru fyrir, til dæmis með hraðvagnakerfi eins og líka er lagt til í aðalskipulaginu. Guðmundur bendir einnig á að hverfin taki breytingum sem þýði að breyta þurfi leiðakerfi almenningssamgangna. Ekki sé hins vegar hægt að flytja járnbrautarteina. 

„Þetta virkar náttúrulega í París, þetta virkar í milljónaborgum,“ segir Guðmundur Freyr. Lestarkerfi virki líka í borgum af sömu stærð og Reykjavík í nágrannalöndunum, segir hann og tekur Noreg sem dæmi. „En þar ertu að tala um 200 þúsund manna borg í neti slíkra borga og lestarsamgöngur úti um allt landið.“ Hér sé aðeins ein borg þannig að lestarteinarnir færu aðeins fram og til baka hér. „Þannig að ég segi, þjónustum þetta með frábæru strætókerfi,“ segir Guðmundur Freyr.