Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Prófessor kallar kókosolíu „hreint eitur“

22.08.2018 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kókosolía er „eitt það versta sem þú getur látið ofan í þig“ og jafngóð fyrir heilsuna og „hreint eitur“. Þetta segir Karin Michaels, prófessor í faraldursfræði við lýðheilsudeild Harvard-háskóla. Ástæðan sé sú að meira en 80% af kókosolíu sé mettuð fita, sem hækki gildi LDL-kólesteróls í líkamanum sem aftur auki líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum.

Michaels lét ummælin falla í fyrirlestri við Freiburg-háskóla, þar sem hún er einnig yfirmaður stofnunar um æxlarannsóknir, að sögn Guardian. Fyrirlesturinn var á þýsku og nærri milljón manns hafa horft á hann á YouTube.

Kókosolía hefur notið vaxandi vinsælda undanfarin ár, ekki síst sem heilsuvara. Það orðspor virðist hins vegar á miklum misskilningi byggt, ef marka má prófessor Michaels. Í kókosolíu er rúmlega tvisvar sinnum meira af mettaðri fitu en í svínafeiti og 60% meira en í nautafeiti.

Í fyrra gerðu Bandarísku hjartasamtökin könnun á viðhorfi til kókosolíu og komust að því að þrír fjórðu hlutar Bandaríkjamanna töldu hana holla. Aðeins 37% næringarfræðinga voru sammála því. Samtökin mæltu gegn neyslu kókosolíu af sömu ástæðu og prófessor Karin Michaels.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV