Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Prjónastofur anna ekki eftirspurn

03.07.2012 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Ullarframleiðsla á Íslandi nýtur styrkja samkvæmt búvörusamningi. Engar hömlur eru hinsvegar á því hversu mikið af lopanum er flutt út - né heldur hvort prjónað er úr honum erlendis.

Í kvöldfréttum útvarps í gær sögðum við frá gagnrýni þingeyskra handverkskvenna á að lopapeysur væru seldar hér á landi og kallaðar íslenskar þótt þær væru prjónaðar í útlöndum. Hönnuðir og seljendur peysanna bentu á að bæði lopinn sem og hönnunin væri íslensk - en innlend framleiðslufyrirtæki, prjónastofur, anni hinsvegar ekki eftirspurn.

Nýtur styrkja

Ullarframleiðsla á Íslandi nýtur styrkja samkvæmt búvörusamningi, það er Ístex sem tekur við allri ull sem til fellur á landinu og spinnur úr lopa og band sem einstaklingar og fyrirtæki kaupa og nýta - innanlands sem erlendis - lopi var fluttur út fyrir 150 milljónir í fyrra segir Ari Teitsson stjórnarformaður Ístex.

„Við höfum enga möguleika á að taka afstöðu til þess hvort að eitthvað af þeim lopa og bandi sem keypt er af okkur innanlands er síðan flutt til Litháen eða Kína til vinnslu. Við getum ekkert skipt okkur af því, eftir að við höfum selt lopann og bandið er það nýr eigandi sem ráðstafar því, hvað hann gerir við það og hvar hann lætur prjóna úr því.“

Tímakaupið lágt

Ari telur að þótt margir myndu frekar vilja láta prjóna peysurnar innanlands, fáist fólk ekki til starfa sökum þess hvað tímakaupið er lágt.

„Í raun er það þannig að við erum í ákveðinni samkepnni við ódýrt vinnuafl í Kína og Litháen og svo framvegis og í raun ekkert sem bendir til þess að þessi samkeppni harðni með batnandi samgöngum.“