Prime Tours hættir akstri fyrir Strætó

Mynd með færslu
 Mynd: rúv - rúv
Prime Tours hefur hætt öllum akstri fyrir Strætó, að því er fram kemur í tilkynningu til fjölmiðla. Greint var frá því fyrr í dag að rútufyrirtækið Prime Tours hefði sinnt akstursþjónustu fatlaðra fyrir Strætó á ótryggðum ökutækjum þar til í gærkvöld. Gjaldþrotabeiðni fyrirtækisins var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í þessum mánuði.

Í fréttatilkynningu Strætó segir að skiptastjóri þrotabús Prime Tours hafi tilkynnt í dag að öllum akstri á vegum þrotabúsins hafi verið hætt. „Akstursþjónusta Strætó vil ítreka að hún mun grípa til viðeigandi úrræða, í samræmi við lög og reglur sem gilda um innkaup opinberra aðila, til að tryggja að þjónustan uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar og að farþegar verði ekki fyrir óþægindum vegna þessa,“ segir í fréttatilkynningu Strætó.

Strætó hefur í tvisvar sinnum fengið á sig úrskurð frá kærunefnd útboðsmála vegna samstarfsins við Prime Tours. Nokkrir verktakar sem sinna akstri ferðaþjónustu fatlaðra voru orðnir langþreyttir á sinnuleysi Strætó í málinu og lögðu niður störf klukkan 11 í dag. Þeir töldu óforsvaranlegt að fyrirtæki sem ekki standi í skilum fái að sinna akstursþjónustu fyrir Strætó.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi