Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Prestur vill skoða aðskilnað ríkis og kirkju

16.10.2018 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Prestur í Akureyrarkirkju segir að þjóðin sé orðin leið á báknum eins og þjóðkirkjunni og kanna eigi möguleika á aðskilnaði ríkis og kirkju. Aldrei hafa jafn fáir hlutfallslega verið skráðir í Þjóðkirkjuna, 65 prósent íbúa landsins. Fimmtungur er annað hvort utan trúfélaga eða í óskráðum félögum.

Fimm félagsmenn í Nýja Avalon og Ananda Marga

48 trú- og lífsskoðunarfélög eru skráð á landinu. Langflest byggja á kristinni trú og eru sum fjölmennari en önnur. Fámennust eru Nýja Avalon og Ananda Marga, með fimm félaga hvort.

Þjóðkirkjan trónir á toppnum með rúmlega 230 þúsund félaga, rúmlega 65 prósent landsmanna, sem er sögulegt lágmark. Það þótti fréttnæmt fyrir tæpum áratug þegar hlutfallið fór undir 80 prósent. Nú hefur skráningum fækkað um rúmlega 2.000 á milli ára, að því er fram kemur í nýju yfirliti Þjóðskrár.

„Fólk fílar ekki lengur bákn eins og þjóðkirkjuna”

Hildur Eir Bolladóttir, prestur við Akureyrarkirkju, segir að þetta sé eðlileg þróun í nútímasamfélagi. 

„Kannski erum við bara að lifa þannig tíma að fólk fílar ekki bákn eins og þjóðkirkjuna. Kannski erum við að lifa þannig tíma að fólk er orðið það andlega sinnað að því finnist að trú og trúarbrögð eigi að spretta meira upp úr grasrótinni,” segir Hildur Eir. 

Nú standa um 24.500 manns utan trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi, um sjö prósent íbúa. Enn fleiri, um 45.000, eru í öðrum trúfélögum en þeim sem skráð eru hér.

Óeðlilegt ef engu verður breytt

Hildur segir tímabært að endurskoða fyrirkomulag þjóðkirkjunnar, mögulega með aðskilnaði ríkis og kirkju. 

„Það er bara ákveðin deyfð í þjóðkirkjunni, umræðan er búin að vera þannig að gagnrýni og annað hefur orðið þannig að það væri óeðlilegt ef við færum ekki að breyta einhverju.”

Fjölgað hefur í Fríkirkjunum tveimur milli ára. Þar eru nú rúmlega 16.800 félagar, sem og í kaþólsku kirkjunni sem er nú með um 4 prósent íbúa landsins. Þeim sem aðhyllast ásatrú fjölgar um 8 prósent og Siðmennt sækir í sig veðrið með rúmlega 16 prósenta fjölgun. 

Zúistum fækkar hratt

Félagsmönnum fækkaði hlutfallslega mest í trúfélagi Zúista á milli áranna 2017 og 2018, um rúm átta prósent. Nú eru tæplega 2.000 Zúistar á landinu, en sprenging var í skráningu 2015 þegar tilkynnt var að félagar fengju sóknargjöld sín endurgreidd. Formlega skilgreining var að um væri að ræða trúarhreyfingu sem iðkar hin fornu trúarbrögð Súmera, þó að fólk hafi tekið því misalvarlega. Síðan þá hefur gengið á ýmsu, eins og fjölmiðlar hafa greint frá. 

Stormasöm saga Zúista

Félag Zúista var stofnað fyrir fimm árum en 2015 tilkynnti ný stjórn að allir félagsmenn mundu fá aðildargjöld endurgreidd. Eftir það gengu um 3000 Íslendingar í félagið, en starfsemin gekk upp og ofan þar sem Zúistar fengu ekki að stofna rekstrarfélag og þurftu að fresta endurgreiðslum til félaganna. Síðar kom í ljós að svokallaðir Kickstarter-bræður voru skráðir fyrir félaginu og hlaut annar þungan dóm í fyrra fyrir umfangsmikil fjársvikamál. Fyrir ári fengu Zúistar rúmar 53 milljónir úr ríkissjóði sem trúfélag og nú síðast var það í fréttum að félagið sótti um lóð í Reykjavík fyrir musteri, en var synjað