Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Prestur vill að biskup víki

04.09.2010 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholtssókn, vill að Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, víki. Hún telur miklar úrsagnir úr Þjóðkirkjunni nú vera meðal annars vegna óánægju með framgöngu biskups í ágúst í tengslum við meint kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar biskups.

Hún segir fólk bíða frekari aðgerða þjóðkirkjunnar ella megi búast við fleiri úrsögnum.

Allt árið 1996 sögðu 2344 sig úr þjóðkirkjunni. Var ástæðan rakin til þess að fyrrihluta þess árs greindi Sigrún Pálína Ingvarsdóttir og fleiri konur frá meintum kynferðisbrotum Ólafs Skúlasonar þáverandi biskups á meðan hann gegndi prestsembætti. Árið eftir, 1997, dró verulega úr úrsögnum. Það gladdi þáverandi biskup.

Úrsagnirnar úr þjóðkirkjunni nú 1. desember til 1. september eru mun fleiri en 1996 eða 3004. Úrsagnirnar í ágústmánuði einum eru 1964 en fyrri hluta árs 1996 voru þær tæplega 1500. Í ágúst síðastliðnum blossaði gamla málið frá 1996 upp á ný og auk þess greindi Guðrún Ebba dóttir Ólafs biskups frá því að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi af föður sínum í æsku.

Viðbrögð Karls Sigurbjörnssonar biskups í ágúst hafa verið gagnrýnd. Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti, segir úrsagnirnar alvarleg tíðindi. Hún segir þó að margt gott hafi gerst í ágúst til dæmis ákvörðun um rannsóknarnefnd tengda viðbrögðum kirkjunnar við meintum brotum Ólafs, yfirlýsing kirkjuráð að það trúi konunum sem ásakað hafa hann og eins fundur 50 presta í síðustu viku með konunum.