Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Prestar ósáttir við mannréttindaráð

08.06.2011 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Prófastur Reykjavíkurprófastdæmis eystra er ósáttur við nýjar tillögur mannréttindaráðs. Hann telur að með þeim sé trúleysi gert að viðmiði í skólakerfinu. Tillögurnar voru samþykktar á mánudag og bíða nú umræðu í borgarstjórn.

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt nýja tillögu um hvernig skuli haga samskiptum presta og annarra leiðtoga lífsskoðunarfélaga við leik- og grunnskólabörn í borginni. Prestar eru enn ósáttir við fyrirhugaðar breytingar.

Mannréttindaráð segir að til grundvallar nýjum reglum liggi réttur barna til að taka þátt í skólastarfi óháð trúar- og lífsskoðunum. Áfram verði fræðsla um íslenska menningu, trúarbrögð og siðfræði mikilvægur hluti af náminu. Einnig að sígildum söngvum, leikjum og handíðum, sem tengjast trú eða kirkjustarfi, verði ekki úthýst úr skólum.


Nokkrir prestar hafa þó lýst yfir óánægju með tillöguna sem enn á þó eftir að taka fyrir í borgarstjórn. Þar á meðal er Gísli Jónasson, sóknarprestur í Breiðholtskirkju. Hann segir margt hafa batnað frá fyrri tillögum, en er þó ósáttur við að veraldlegri heimsmynd sé gert hærra undir höfði en hinni trúarlegu.


Honum þykir sem trúleysið sé gert að normi, sem sé þá rétt og eðlilegt, en trúin og allt sem henni viðkemur sé höndlað eins og eitthvað sem er óeðlilegt og eigi ekki heima í hinum opinbera rými.

Gísli  bendir á að langflest íslensk skólabörn séu skírð til kristinnar trúar. Því telji hann eðlilegt að trúin fái sinni sess í lífi þeirra jafnt innan skóla sem utan.