„Já, allavega að hluta til, þetta yrði ansi löng ganga ef við ætluðum að fara á alla staði sem tengjast þessari merkilegu menningarbyltingu sem pönkið var,“ segir Unnur María í samtali við Síðdegisútvarpið. „Við skoðum gamla tónleikastaði, æfingahúsnæði, plötubúðir og staði þar sem pönkarar komu saman. Og endum auðvitað á Hlemmi.“ Unnur segir að mikill kraftur hafi fylgt íslensku pönkbylgjunni en hún hafi – eins og svo margir aðrar bylgjur á árum áður – borist hingað nokkuð seint.
„Við vorum sein til. Ef maður skoðar borgaralega fjölmiðla frá 1975-1976 þá eru þeir dálítið í æsifréttamennsku um pönkið í útlöndum.“ Ein ástæðan fyrir seinkuninni gæti þó hafa verið óvenjumikil velmegun á Íslandi á þessum tíma. „Pönkið skýtur fyrst rótum sem listræn hreyfing í Bandaríkjunum en þegar það fyrir yfir til Englands öðlast það mjög pólitíska vídd,“ segir Unnur. Á Englandi á þessum tíma var allt í hers höndum í samfélaginu, ekki síst fyrir ungt fólk. „Þegar Sex Pistols syngja No future, engin framtíð, þá er það ekki merkingarlaust heróp. Þetta átti mikinn hljómgrunn hjá æsku sem elst upp við forsendubrest. Unglingar af verkamannastétt upplifa það að Verkamannaflokkurinn hafi svikið þau.“ Á sama tíma var hins vegar góðæri á Íslandi, fólk var að byrja að ferðast til sólarlanda og næga vinnu að fá. Við höfum einfaldlega haft það of gott til að pönkið myndi koma hingað.