Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Pönkið seint til Íslands vegna góðæris

Mynd: Úr einkasafni / Úr einkasafni

Pönkið seint til Íslands vegna góðæris

01.08.2018 - 16:59

Höfundar

Unnur María Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur og sirkuslistakona, ætlar að ganga með fólk frá Borgarbókasafninu upp að Hlemmi í kvöld og fara með það á horfnar slóðir pönksins í Reykjavík.

„Já, allavega að hluta til, þetta yrði ansi löng ganga ef við ætluðum að fara á alla staði sem tengjast þessari merkilegu menningarbyltingu sem pönkið var,“ segir Unnur María í samtali við Síðdegisútvarpið. „Við skoðum gamla tónleikastaði, æfingahúsnæði, plötubúðir og staði þar sem pönkarar komu saman. Og endum auðvitað á Hlemmi.“ Unnur segir að mikill kraftur hafi fylgt íslensku pönkbylgjunni en hún hafi – eins og svo margir aðrar bylgjur á árum áður – borist hingað nokkuð seint.

„Við vorum sein til. Ef maður skoðar borgaralega fjölmiðla frá 1975-1976 þá eru þeir dálítið í æsifréttamennsku um pönkið í útlöndum.“ Ein ástæðan fyrir seinkuninni gæti þó hafa verið óvenjumikil velmegun á Íslandi á þessum tíma. „Pönkið skýtur fyrst rótum sem listræn hreyfing í Bandaríkjunum en þegar það fyrir yfir til Englands öðlast það mjög pólitíska vídd,“ segir Unnur. Á Englandi á þessum tíma var allt í hers höndum í samfélaginu, ekki síst fyrir ungt fólk. „Þegar Sex Pistols syngja No future, engin framtíð, þá er það ekki merkingarlaust heróp. Þetta átti mikinn hljómgrunn hjá æsku sem elst upp við forsendubrest. Unglingar af verkamannastétt upplifa það að Verkamannaflokkurinn hafi svikið þau.“ Á sama tíma var hins vegar góðæri á Íslandi, fólk var að byrja að ferðast til sólarlanda og næga vinnu að fá. Við höfum einfaldlega haft það of gott til að pönkið myndi koma hingað.

Úr heimildarmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar um íslensku pönksenuna, Rokki í Reykjavík.

Þegar það kom svo loks var það mikil vítamínsprauta í menningar- og tónlistarlíf Reykjavíkur. „Það sem pönkið snýst alltaf um er þessi „gerðu það sjálfur“-menning, grasrótarstarfsemi og atorka.“ Margir í Reykjavík voru hins vegar hræddir við pönkarana og útganginn á þeim. „Já, pönkið ögrar sjónrænt og notast við tákn þess sem stendur utan við samfélagið, tákn úrhrakanna. Þannig að þegar þú ert búinn að klæða þig upp í svart leður, rifin föt, setja á þig gadda, greiða hárið upp eins og móhíkana, auðvitað virkarðu frekar hættulegur,“ segir Unnur María.

En hvar skyldi pönkið vera í dag? Unnur María segir pönkið verið marglaga skepnu sem hafi gengið í gegnum alls konur bylgjur og breytingar. „Ég held að það sem tíminn og fjarlægðin hafi gert er að menningarlegt vægi pönksins hefur verið viðurkennt. Þetta er ákveðin kúvending eins og verður alltaf, við förum út í öfgar einhverja áttina og svona hina,“ segir Unnur. „Eins og korter í hrun þegar allir voru að kaupa jeppa og flatskjá, svo allt í einu ári seinna er komið í tísku að taka slátur og prjóna.“ Á áttunda áratugnum hafi ofhlaðin og yfirpródúseruð progg- og popptónlist verið vinsæl með endalausum krúsídúllum í útsetningum og upptöku, auk þess sem stjörnurnar voru gerðar því sem næst ofurmannlegar. „Pönkið kom sem mjög kröftug höfnun á þessari ofhlöðnu menningu þar sem stjörnurnar eru settar upp á stall. Áherslan var á að þetta fólk upp á sviði gæti allt eins verið þú.“

Rætt var við Unni Maríu Bergsveinsdóttur í Síðdegisútvarpinu. Hún leggur af stað í pönkgönguna frá Borgarbókasafninu í Grófinni kl. 20:00 í kvöld, 1. ágúst. Spígsporað verður í gegnum Hallærisplanið og upp og niður stígana milli Hverfisgötu og Laugavegs og endað á Hlemmi.

Tengdar fréttir

Tónlist

Aphex Twin lætur á sér kræla

Tónlist

Ormurinn búinn að bíta í skottið á sér

Tónlist

Úrkynjun, örvænting og dauði

Tónlist

Leyfið börnunum að koma til Boards of Canada