
Pompeo: Viðskiptaþvinganir verða áfram í gildi
Pompeo sagðist vongóður um að kjarnorkuafvopnun væri fullbúin fyrir árið 2020, þótt enn væri mikið verk að vinna, eins og haft er eftir honum í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC. Þá sagði hann að Norður-Kóreumenn skildu vel mikilvægi þess að hægt verði að hafa eftirlit með afvopnun í landinu. Þegar fréttamenn spurðu hann hvers vegna þessa væri ekki getið í samningi þeirra Donalds Trump og Kim Jong-un sagði Pompeo að spurningar þeirra væru fáránlegar.
Bandaríkin og Suður-Kórea standi styrkum fótum
Þá sagði utanríkisráðherra Suður-Kóreu, Kang Kyung-wha, að bandalag Suður-Kóreu og Bandaríkjanna stæði jafn styrkum fótum og nokkru sinni fyrr. Þetta sagði hann á blaðamannafundi aðeins tveimur dögum eftir að Bandaríkjaforseti lýsti því óvænt yfir að Bandaríkin ætluðu ekki lengur að taka þátt í sameiginlegum heræfingum með Suður-Kóreumönnum.
Mike Pompeo kynnti niðurstöður leiðtogafundarins, sem Trump og Kim Jong-un sátu á þriðjudag, fyrir starfsbræðrum sínum frá Suður-Kóreu og Japan í morgun. Hann sagði að Bandaríkin ætluðu áfram að vinna að algerri, sannanlegri og óafturkræfri kjarnorkuafvopnun í Norður-Kóreu.