Pompeo reynir að lægja öldur

epa08301769 US Secretary of State Mike Pompeo speaks to the media about the coronavirus COVID-19 pandemic, which he referred to as the 'Wuhan virus', at the State Department in Washington, DC, USA, 17 March 2020. Efforts to contain the pandemic have caused travel disruptions, sporting event cancellations, runs on cleaning supplies and food and other inconveniences.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom í morgun til Afganistan og er búist við að heimsóknin snúist að mestu um að lægja öldur milli forseta landsins og helsta keppinautar hans. Enn fremur að þrýsta á að viðræðum um fangaskipti við Talibana verði hraðað svo hægt sé að hefja formlega friðarviðræður milli þeirra og stjórnvalda í Kabúl.

Mikil spenna er í Kabúl vegna deilna Ashrafs Ghani, forseta Afganistans, og keppinautarins Abdullah Abdullah. Ghani var nýlega lýstur sigurvegari í forsetakosningum sem fram fóru í landinu í fyrra, en Abdullah viðurkennir ekki úrslitin og hefur sjálfur lýst sig réttkjörinn forseta.

Vegna deilna þeirra hafa tafist ýmis ákvæði nýgerðs samkomulags milli Bandaríkjamanna og Talibana, sem miðar að fækkun og síðar brottför bandarísks herliðs frá landinu. Kveðið var á um fangaskipti og síðan formlegar friðarviðræður milli Talibana og stjórnvalda í Kabúl, sem ekki voru með í fyrrnefndu samkomulagi.

Var stefnt að því að friðarviðræður hæfust 10. þessa mánaðar, en það var fyrst í gær að fulltrúar stjórnvalda og Talibana hittust til að ræða fangaskipti. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld í Kabúl sleppi allt að fimm þúsund liðsmönnum Talibana en fái í staðinn lausa um eitt þúsund stjórnarhermenn.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi