
Pompeo ítrekar kröfur Bandaríkjanna
Pompeo hélt fund með Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, og fleirum í Pyongyang síðustu tvo daga. Þar ræddu þeir framvindu þess sem samþykkt var á leiðtogafundi þeirra Kims og Donald Trump í Singapúr í síðasta mánuði. Pompeo sagði fundinn hafa verið árangursríkann, en eftir að hann fór höfðu norður-kóresk yfirvöld aðra sögu að segja. Þau sögðu Bandaríkin hafa unnið gegn þeim árangri sem náðist á leiðtogafundinum. Búist hefði verið við því að Pompeo kæmi fram með uppbyggjandi lausnir, en ekki einhliða þrýsting eins og raunin varð.
Pompeo er nú í Japan þar sem hann greinir starfsbræðrum sínum í Japan og Suður-Kóreu frá árangri fundarins með Norður-Kóreumönnum. Þaðan heldur hann för sinni áfram til Víetnam og Abu Dhabi, áður en hann fer á fund NATO-ríkja í Brussel í vikunni ásamt Trump.