Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pompeo ítrekar kröfur Bandaríkjanna

08.07.2018 - 03:31
epa06873128 US Secretary of State Mike Pompeo (C), Japan's Foreign Minister Taro Kono (L) and and South Korean Foreign Minister Kang Kyung Wha (R) arrive for the Japan-US-South Korea Trilateral Foreign Ministers' Meeting at the Iikura Guesthouse
 Mynd: EPA-EFE - ANADOLU AGENCY POOL
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ítrekaði á blaðamannafundi í Japan í nótt að viðskiptaþvinganir verði við lýði gagnvart Norður-Kóreu þar til ríkið hefur að fullu lagt niður kjarnorkuframleiðslu sína og -tilraunir. AFP fréttastofan greinir frá. Norður-kóreskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að þarlendum yfirvöldum þyki afstaða Bandaríkjanna hryggileg og valdi þeim áhyggjum.

Pompeo hélt fund með Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, og fleirum í Pyongyang síðustu tvo daga. Þar ræddu þeir framvindu  þess sem samþykkt var á leiðtogafundi þeirra Kims og Donald Trump í Singapúr í síðasta mánuði. Pompeo sagði fundinn hafa verið árangursríkann, en eftir að hann fór höfðu norður-kóresk yfirvöld aðra sögu að segja. Þau sögðu Bandaríkin hafa unnið gegn þeim árangri sem náðist á leiðtogafundinum. Búist hefði verið við því að Pompeo kæmi fram með uppbyggjandi lausnir, en ekki einhliða þrýsting eins og raunin varð.

Pompeo er nú í Japan þar sem hann greinir starfsbræðrum sínum í Japan og Suður-Kóreu frá árangri fundarins með Norður-Kóreumönnum. Þaðan heldur hann för sinni áfram til Víetnam og Abu Dhabi, áður en hann fer á fund NATO-ríkja í Brussel í vikunni ásamt Trump.