Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pompeo hótar Alþjóðaglæpadómstólnum

Mynd með færslu
 Mynd:
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir ríkið ætla að draga til baka eða hafna vegabréfsáritunum starfsmanna Alþjóðaglæpadómstólsins sem eiga að rannsaka aðgerðir Bandaríkjahers í Afganistan eða í öðrum ríkjum. Hann segir stjórnvöld í Washington reiðubúin að ganga lengra, þar á meðal beita efnahagsþvingunum, ef dómstóllinn ætlar að hefja rannsóknir á aðgerðir Bandaríkjanna eða bandamanna þeirra. 

Pompeo sagði við blaðamenn í gær að Alþjóðaglæpadómstóllinn væri að ráðast á bandaríska dómskerfið. Guardian hefur eftir honum að það sé ekki og seint fyrir dómstólinn að breyta um stefnu og hvetur hann till þess að það verði gert þegar í stað.

Bandaríkin hafa aldrei átt aðild að dómstólnum. Fatou Bensouda, saksóknari, óskaði eftir því við dómara í nóvember 2017 að fá að hefja rannsókn á meintum stríðsglæpum í Afganistan. Þeir sem taka á einhvern hátt þátt í rannsókninni, eða hafa tekið þátt, verða sviptir vegabréfsáritun að sögn Pompeos. Eins sagði hann vegabréfsáritanir þeirra sem taka þátt í rannsóknum á meintum stríðsglæpum bandalagsþjóða, þá sérstaklega Ísrael, verða dregnar til baka eða nýjum áritunum hafnað.

Pompeo sagði Bandaríkin hafa neitað samstarfi við Alþjóðaglæpadómstólinn vegna víðtækra heimilda hans og vald hans ógni sjálfstæði Bandaríkjanna. „Við erum staðráðin í að vernda bandaríska starfsmenn sem og starfsmenn bandamanna okkar frá því að þurfa að lifa í ótta við óréttláta málshöfðun vegna ákvarðana sem eru teknar til að vernda okkar glæstu þjóð," hefur Guardian eftir Pompeo. Hann sagði Bandaríkjastjórn þó taka þátt í málsóknum gegn þeim sem gerist sekir um alþjóðlega glæpi. Benti hann því til stuðnings á stuðning Bandaríkjanna vegna stríðsglæpa í Rúanda, fyrrverandi Júgóslavíu og víðar.

Alþjóðaglæpadómstóllinn sendi frá sér yfirlýsingu eftir ummæli Pompeos. Þar segir að sem dómstóll ætli hann óhræddur að halda áfram sjálfstæðu starfi sínu í samræmi við umboð sitt og höfuðgildi um að viðhalda lögum. Guardian hefur eftir Richard Dicker, yfirmanni alþjóðadómsmáladeildar Mannréttindavaktarinnar, Human Rights Watch, að ummæli Pompeos væru tilraun til þess að hfa áhrif á dómara og koma í veg fyrir að fórnarlömb í Afganistan geti sóst eftir réttlæti. Þá sagði hann ummælin sýna blygðunarlausa fyrirlitningu á  réttarríkinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV