Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.
Pompeo fer á fund Kim Jong Un
03.07.2018 - 00:47
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hyggst heimsækja Norður-Kóreu í næstu viku. Þar mun hann ræða við Kim Jong Un leiðtoga landsins um fyrirhugaða kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreumanna, segir talsmaður Hvíta hússins. Þá mun Pompeo heimsækja Tókýó, Hanoí, Abu Dhabi og Brussel, þar sem leiðtogafundur NATO-ríkjanna fer fram í næstu viku.
Um helgina hittust bandaríski sendiherrann í Filipseyjum og norður-kóreskir embættismenn á svæðinu milli Norður- og Suður-Kóreu. Það var fyrsti fundur bandarískra og norður-kóreskra embættismanna síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti hitti Kim Jong Un á sögulegum fundi 12. júní, að því er blaðamenn Washington Post komast næst.
Talsverðrar tortryggni hefur gætt um yfirlýsingar Norður-Kóreumanna síðan fundur leiðtoganna fór fram. Trump og Kim sögðust eftir fundinn í júní hafa náð samkomulagi um bætt samskipti ríkjanna og kjarnorkuvopnalausan Kóreuskaga. Bandaríska leyniþjónustan telur að Norður-Kórea sé að reyna að blekkja Bandaríkin.
Mynd: EPA-EFE - KCNA
Mike Pompeo og Kim Jong Un hittust líka í maí.