Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pólitískt gildi - ekki lagalegt

13.03.2015 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Í bréfi utanríkisráðherra til ESB kemur ekkert fram sem breytir lagalegri stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, nema að sambandið bregðist þannig við, segir lagaprófessor. Merking bréfs utanríkisráðherra til Evrópusambandsins hefur valdið miklum vangaveltum í dag.

 

Fjöldi fræðimanna sem fréttastofa hefur rætt við um málið segist einfaldlega klóra sér í kollinum yfir því.

Engin áhorf um að hefja viðræður að nýju

Í bréfinu segir: „Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður. Í ljósi framangreinds er það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur hún svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu.“

Engar lagalegar afleiðingar

Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir þetta ekki nýtt. „Ég er ekki viss um að þarna sé neitt að finna sem að breytir lagalegu stöðunni frá því sem komið var. Þetta er pólitísk yfirlýsing sem hefur mikið gildi, klárlega. En lagalega er ég ekki viss um að þarna sé ákvörðun sem hefur neinar afleiðingar nema hugsanlega að ESB bregðist við með einhverjum hætti sem að verður til þess.“

Pólitísk yfirlýsing sem ekki breyti réttarstöðu

Ragnhildur telur að ef með bréfinu er aðeins verið að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar, innihaldið sé fyrst og fremst pólitísk yfirlýsing og breyti ekki réttarstöðu, þá þurfi ekki að fara með það fyrir utanríkismálanefnd. Kollegi hennar, Björg Thorarensen lagaprófessor, er aftur á móti á því að Evrópumálin séu meiriháttar utanríkismál og að fjalla hefði þurft um málið fyrir nefndinni.

Ekki á listanum lengur

En hvað þýðir beiðni utanríkisráðherra um að ESB lagi verklag sitt að því að ríkisstjórnin líti ekki á Ísland sem umsóknarríki?

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu þýðir það að Ísland verði tekið af listanum yfir umsóknarríki, að ekki séu unnar skýrslur um framvindu viðræðnanna, sem hafa reyndar ekki verið unnar um allnokkurt skeið, að Íslandi verði ekki boðið á fundi sem umsóknarríki og að vefsíður ESB verði lagaðar að því að Ísland sé ekki í hópi umsækjenda að ESB.

Haft er eftir Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í morgun að:

Hann hafi ekki sent neitt bréf þar sem fram kemur að einhverju sé rift eða það dregið til baka.

Fréttastofa náði tali af Gunnari Braga síðdegis, þá var hann flugbraut erlendis. Hann svaraði því til að Ísland væri ekki umsækjandi að Evrópusambandinu lengur.