Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Pólitískir vindar blása lífi í Óskarinn

epa03116767 A woman grabs an Oscar statuette during the opening of the Academy of Motion Picture Arts and Sciences 'Meet the Oscars, Grand Central' at Vanderbilt Hall in Grand Central Terminal in New York, New York, USA, 22 February 2012.
 Mynd: EPA

Pólitískir vindar blása lífi í Óskarinn

23.01.2018 - 12:15

Höfundar

Óskarsverðlaunahátíðin á stórafmæli í ár, en nítugasta hátíðin fer fram í Hollywood 4. mars. Styr hefur staðið um hátíðina síðustu ár og má segja að nýjasti skjálftinn, sjálf metoo-byltingin, hafi blásið nýju lífi í hátíðina en fréttir af kynferðisáreitni áhrifafólks í kvikmyndabransanum kunna að hafa úrslitaáhrif á niðurstöður tilnefninga sem verða kynntar kl. 13:20 í dag. RÚV sýnir beint frá tilnefningunum á RÚV.is.

Hátíðin hefur sætt gagnrýni síðustu ár vegna slagsíðu dómnefndar sem þykir eingöngu verðlauna hvíta Bandaríkjamenn. Árið 2015 varð til hreyfing undir myllumerkinu #Oscarssowhite þar sem hvítþvottur verðlaunanefndar var gagnrýndur harðlega. Umræðan náði hámarki sínu árið 2016 þegar leikstjórinn Spike Lee setti mynd af Dr. Martin Luther King, Jr. á Instagram ásamt tilkynningu um að hann ætlaði að sniðganga hátíðina það árið. Leikkonan Jada Pinkett Smith fylgdi hans fordæmi og setti myndband á Facebook þar sem hún hvatti kollega sína til að sniðganga hátíðina í mótmælaskyni. Tveimur dögum eftir Instagram-færslu Spike Lee, þann 19. janúar 2016 sendi forseti Óskarsverðlaunanefndar frá sér yfirlýsingu þar sem fulltrúar verðlaunanna lofuðu bót og betrun í þeim efnum.

Breytt fyrirkomulag vegna gagnrýni

Mótmælin höfðu áhrif, og hafa meðal annars leitt til þess að nokkur mannaskipti hafa orðið í þeim nefndum sem sjá um tilnefningarnar eða um 20% endurnýjun frá árinu 2015 og nýliðun ungs fólks er þar áberandi. Auk þess hefur kosningafyrirkomulagi nefndanna verið breytt. Gæti nýtt skipulag haft töluverð áhrif á niðurstöðurnar sem í stuttu máli mætti túlka þannig að þær myndir sem lenda nálægt miðju hjá mörgum nefndarmönnum eigi betri möguleika en þær sem lenda mjög ofarlega hjá fáum.

Sigurganga McDonagh mögulega á enda

Þetta getur haft úrslitaáhrif fyrir myndir á borð við hina kolsvörtu gamanmynd í leikstjórn Martin McDonagh, Three Billboards Outside Ebbing Missouri en hún er meðal þeirra mynda sem þykir sigurstranglegust á hátíðinni í ár. Hún hefur sópað að sér tilnefningum og verðlaunum á öðrum hátíðum á verðlaunatímabilinu sem hófst í nóvember. Myndin hefur hlotið fádæma lof gagnrýnenda en það virðist vera í ökkla eða eyra, og myndin af því taginu að lenda efst á listum eða alls ekki.

Disaster Artist í ógöngum

Kvikmyndin Disaster Artist í leikstjórn James Franco, sem var kynnir á verðlaununum árið 2011, hefur á síðustu misserum verið orðuð við Óskarstilnefningu, þangað til nú. Franco hefur verið ásakaður um kynferðisbrot og komu fyrstu sögurnar fram í lok árs 2017. Þann 7. janúar hlaut Franco Golden Globe verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í myndinni og í kjölfarið urðu frásagnir af kynferðisbrotum leikarans enn háværari.

Þann 11. janúar birti The Los Angeles Times ítarlega úttekt á frásögnum fimm kvenna sem sökuðu Franco um kynferðislega áreitni eða ofbeldi í starfi. Fjórar kvennanna voru nemendur hans þegar atvikin áttu sér stað, en hann hefur rekið eigin leiklistarskóla um nokkurt skeið.

Líkt og fyrri dæmi sýna hafa forsvarsmenn hátíðarinnar brugðist við gagnrýni af þessu tagi. Það er því óhætt að ætla að pólitískir straumar muni hafa áhrif í tilnefningum þeim sem birtar verða upp úr hádegi.

Undir trénu fór ekki áfram

Framlag Íslendinga til hátíðarinnar í ár var kvikmyndin Undir trénu í leikstjórn Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar. Hún hlaut ekki tilnefningu en í hópi þeirra mynda sem komu til greina í forvali sem kynnt var í lok árs 2017, en fimm erlendar myndir sem tilnefndar eru verða kynntar í dag.

Hátíðin er haldin óvenjulega seint í ár vegna vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang sem standa til 25. febrúar.