Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Pólitískar deilur seinka evrópskum klukkum

08.03.2018 - 06:30
Nærmynd af klukkuvísi.
 Mynd: Darren Hester - Openphoto
Truflanir á sameiginlegu raforkuflutningsneti fjölda Evrópuþjóða hafa leitt til þess að rafknúnum klukkum hefur víða seinkað um allt að sex mínútur á síðustu vikum. Vandinn í flutningskerfinu er rakinn til harðvítugra, pólitískra deilna milli Serbíu og Kósóvó. Kósóvóbúar nota töluvert meira rafmagn en þeir framleiða og Serbar, sem samkvæmt samningum eiga að sjá þessum nágrönnum sínum fyrir því rafmagni sem upp á vantar, hafa ekki staðið við sitt síðustu vikurnar.

Þetta veldur því að rafmagnið verður að koma einhverstaðar annarstaðar frá og dómínó-áhrifin eru þau, að allt að 113 gígavattstundir hafa farið út af hinu sameiginlega háspennuneti Evrópuþjóðanna síðan í janúar.

Netið teygir sig til 25 ríkja, frá Portúgal til Póllands, Grikklandi til Þýskalands - og til Balkanlandanna tveggja sem fyrr eru nefnd, hverra sambúð er ekki sem best skyldi. Og þar sem þetta er allt samtengt, segir Claire Camus, talskona ENTSO-E, sem rekur hið sameiginlega háspennunet, þá veldur slíkt orkutap truflunum á tíðni rafmagns í kerfinu öllu, en hún á að vera 50 Hz.

Og frávikið frá hinni stöðluðu tíðni, sem þessi truflun veldur, hefur reynst nógu mikið til að trufla þær rafmagnsklukkur sem stungið er í samband og byggja mælingar sínar á tímans rás á hinni stöðluðu tíðni, með þeim afleiðingum að þær hafa dregist heilar sex mínútur aftur úr samtíma sínum frá því um miðjan janúar. Unnið er að tæknilegri skammtímalausn á vandanum, segir Camus, en langtímalausnin er ekki tæknileg, heldur pólitísk - Serbía og Kósóvó verða að leysa úr sínum deilum, svo klukkur Evrópu komist aftur í takt við tímann. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV