„Stundum eru það utanaðkomandi aðilar sem sjá um spurningarnar á þessum kvöldum en við erum líka með barsvar-stjóra á okkar vegum sem kalla sig Pub-quiz plebbana. Þeir eru reyndar orðnir svo vinsælir að það hefur myndast aðdáendahópur í kringum þá sem mætir alltaf þegar þeir stýra spurningunum.“
Barsvar-kúltúrinn ætti ekki að hafa farið fram hjá mörgum Reykvíkingum, en Stúdentakjallarinn hefur staðið sig sérstaklega vel í að halda þessi kvöld og þau eru fjölbreytt. Valgerður segir að stundum sé mestmegnis spurt út í almenna þekkingu en oft eru fyrir fram ákveðin þemu. „Á föstudaginn verðum við til dæmis með Marvel-þema og á döfinni er að halda upp á lokaþátt nýjustu þáttarraðar Game of Thrones með barsvari.“
Þó það sé ekki skylda fyrir þátttöku segir Valgerður að stundum mæti fólk í búningum á þemakvöldin. „Ég mæti allavega sjálf í búning. Þegar Harry Potter þemað var þá mætti ég sem Professor Quirrell, vondi kallinn úr fyrstu myndinni. Ég var með gerviskalla og andlitið á Voldemort á hnakkanum.“
Rætt var við Valgerði Önnu Einarsdóttur í Morgunútvarpi Rásar 2.