Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlar til foreldra að brýna fyrir börnum sínum að kanna hvort átt hafi verið við hjól þeirra áður en lagt er af stað á þeim. Undanfarið hefur borið á því að rær hafi verið losaðar á hjólum barna og þau slasast.
Greint var frá því í byrjun september að ungur drengur hefði tvíhandleggsbrotnað, og þurft að gangast undir aðgerð, vegna þess að afturdekk á hjóli hans hefði verið losað. Í byrjun október fékk drengur skurð og tönn brotnaði vegna sams konar atviks.
Á Facebook-síðu Lögreglunnar má finna ábendingar um hvernig hægt sé að kanna hvort átt hafi verið við rær. Með því að herða plastbensli yfir arminn á rónni eigi að vera augljóst hvort átt hafi verið við hana. Jafnvel komi það í veg fyrir að róin verði losuð. Bent er á að slík plastbensli fáist í flestum byggingavöruverslunum.