Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Plain Vanilla lokar og segir öllum upp

31.08.2016 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: Plain Vanilla
Öllum 36 starfsmönnum Plain Vanilla hér á landi var sagt upp í morgun. Þetta staðfestir Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri félagsins. Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC tilkynnti fyrirtækinu í síðustu viku að hún hefði hætt við að framleiða gagnvirka spurningaþætti sem félagið hefur unnið að í tæp tvö ár.

Þorsteinn segir við fréttastofu að það hafi verið mikill skellur og því hafi allir fengið uppsagnarbréf í dag.

Hann segir að spurningaleikurinn QuizUp muni áfram vera til en ekki liggi fyrir á þessari stundu hver muni eiga leikinn eða stýra þróun hans í framtíðinni. Þorsteinn segir að fyrirtækinu Plain Vanilla verði lokað en stefnt sé að því að það fari ekki í gjaldþrot, einkum til þess að tryggja að allir starfsmenn sem sagt var upp í morgun fái uppsagnarfrest sinn greiddan að fullu. Hann segir að hann muni sjálfur hætta afskiptum af QuizUp. 

Rekstrarhalli hefur verið á starfsemi Plain Vanilla á síðustu árum. Í lok apríl var 27 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp. Uppsagnirnar voru liður í endurskipulagningu fyrirtækisins, en ákveðið var að leggja áherslu á þróun sjónvarpsþáttar í samstarfi við sjónvarpsrisann NBC.

Frá síðustu áramótum hefur orðið viðsnúningur í rekstri Plain Vanilla. Tekjur jukust en þó var ennþá halli á rekstrinum. Vonir stóðu til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu sjónvarpsþáttaraðar undir merkjum QuizUp á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC næsta vor.

Þegar NBC tilkynnti að hætt hefði verið við þáttinn var ljóst að ekki voru forsendur til áframhaldandi reksturs. Í fréttatilkynningu frá Plain Vanilla vegna uppsagnanna segir Þorsteinn um það verkefni: „Í þetta skiptið þá veðjuðum við á viðamikið samstarf við sjónvarpsrisann NBC. Segja má að við höfum sett of mörg egg í þessa NBC-körfu en við höfum eytt miklum tíma og orku í þróun sjónvarpsþáttarins. Þegar ég fékk skilaboðin frá NBC um að hætt yrði við framleiðslu þáttarins þá varð um leið ljóst að forsendur fyrir frekari rekstri, án umfangsmikilla breytinga, væru brostnar,“ segir Þorsteinn.

Í fréttatilkynningunni segir Þorsteinn enn fremur: „Eftir stendur að síðustu ár hafa verið ótrúlegt ævintýri fyrir mig og alla þá sem komu að Plain Vanilla. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki á þessari vegferð. Ég er spenntur að sjá hvað starfsfólk Plain Vanilla tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og er handviss um að fjöldi nýrra fyrirtækja verður stofnaður af þessum hóp sem hefur fengið frábæra reynslu hjá okkur undanfarin ár.”

Tölvuleikurinn QuizUp hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri. 80 milljónir hafa hlaðið niður QuizUp og enn bætast 20.000 nýir notendur við leikinn á dag. Í tengslum við þróun leiksins sköpuðust tæplega 100 tæknistörf á Íslandi þegar mest var og segir Þorsteinn að 5 milljarðar króna hafi komið frá erlendum fjárfestum inn í íslenskt hagkerfi.

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV