Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Plágan lúsmý: Hvað er til ráða?

18.07.2017 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: Erling Ólafsson - Náttúrufræðistofnun Íslands
Lúsmý virðist hafa náð góðri fótfestu á Íslandi, einkum á Suðvestur- og Vesturlandi. Á samfélagsmiðlum og í spjallhópum sumarbústaðaeigenda er kvartað sáran undan þessum smágerða vágesti, sem ræðst til atlögu að nóttu til sem degi og sýgur blóð úr fólki. Bitin geta orðið rauð og upphleypt og valdið miklum kláða. Svo rammt kveður að árásum flugunnar að sumir forðast sumarbústaðalönd eða að vera utandyra á meðan hún er í hámarki.

Fréttastofa RÚV hefur tekið saman fróðleik um lúsmý og nokkur ráð við þessum hvimleiða gesti og bitum hans.

Hvað er lúsmý?

Lúsmý heitir ceratopogonidae á latínu og gengur undir gælunafninu no-see-ums á ensku, vegna þess hve erfitt er að greina það með berum augum. Svíar kalla fluguna knott.

Hún er agnarsmá, um 1,5 millimetrar, en ræðst á fólk í stórum hersingum. Fæstir verða varir við árásirnar fyrr en eftir á, þegar útbrot og kláði gera vart við sig. Flugan ræðst gjarnan til atlögu á morgnana eða á kvöldin, þegar fólk er úti við, og flýgur inn um glugga að næturlagi í stórum hópum og gæðir sér á blóði grunlauss fólks á meðan það sefur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Lúsmý heldur sig helst við vatn og lifir á fæðu úr plönturíkinu, en kvenflugan sækir í prótín úr mannablóði til að egg hennar verði frjó. Talið er að kvendýrin laðist að koltvísýringi sem fólk gefur frá sér. 

Hvernig má forðast lúsmý?

Á netinu má finna margar síður með ráðum um það hvernig losna megi við fluguna eða bregðast við biti hennar. Á einni þeirra er að finna þessi ráð:

  • að forðast að láta vatn standa í pollum eða kerjum í görðum og á húsalóðum.
  • að loka veröndum, svölum og öðrum svæðum þar sem fólk hefst við utandyra með flugnaneti. Tekið er fram að venjulegt flugnanet gagnast ekki í þessum tilgangi, vegna þess hve flugurnar eru smáar. Hægt er að panta sérstök lúsmýflugnanet (e. noseeums netting) í vefverslunum eins og Amazon.com. Hægt er að nota netin til að skerma fyrir glugga, svo hægt sé að hafa þá opna án þess að flugurnar flykkist inn.
  • að ganga í langermabolum og síðbuxum, sokkum og skóm utandyra, einkum í ljósaskiptunum.
  • að bera á sig flugnafælandi krem eða úða. Á síðunni er mælt með vörum með virka efninu DEET (diethyltoluamíð). Þó er aðeins talið ráðlegt að nota þær í litlu magni, þar sem efnið er talið geta haft neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfi í of stórum skömmtum.
  • að nota mýflugnagildrur, stór og fremur dýr tæki, þar sem própangas er notað til að gabba flugurnar og lokka þær í gildru. (Rétt er að benda á að hægt er að nota kolagrill í sama tilgangi, sjá hér að neðan.)  
  • að sprauta skordýraeitri yfir garða og lóðir. Þessi aðferð hefur borið misjafnan árangur á höfuðborgarsvæðinu, að sögn íslenskra meindýraeyða.

Lúsmý á grillið

Í Heimi smádýranna, fræðslusíðu Erlings Ólafssonar skordýrafræðings á Facebook, birtist fyrir tveimur árum ráð ættað frá Svíþjóð um það hvernig nota má venjulegt kolagrill sem lúsmýgildru. Kolin gefa frá sér koltvísýring, sem er efnið sem talið er að laði mýið að mannslíkamanum. Lúsmýið er þannig blekkt að grillinu og steikist á lokinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Rosenberg - Facebook
Lúsmýið festist á grilllokinu. Kolunum er raðað í skeifu í grillinu, og tendrað í öðrum enda kolaraðarinnar.

1. Leggið kol í hring á grillinu, en gætið þess að loka ekki hringnum. Kolunum er raðað í tvöfalda röð, á tveimur hæðum. Kveikið í öðrum enda kolaskeifunnar, kolin kveikja síðan hvert í öðru og halda grillinu heitu alla nóttina. (Sjá mynd.)
2. Lokið efra spjaldinu á grillinu en hafið neðra spjaldið hálfopið.
3. Smyrjið lokið að utan með matarolíu.
4. Leggið lokið á grillið og leyfið mýinu að flykkjast að. (Sjá mynd.)

Best er sagt að nota þessa aðferð að næturlagi, í logni og þurrki. 

Ráð við biti lúsmýs

Ef illa fer og flugan lætur til skarar skríða, geta bitin valdið bólgum og kláða. Davíð Gíslason ofnæmislæknir gefur eftirfarandi ráð við óþægindum:

  • hreinsa bitið með spritti og kæla það
  • dugi það ekki, er einfaldast að taka ofnæmistöflur, til dæmis Histasín eða Lóritín, sem fást án lyfseðils í lyfjaverslunum.
  • bera sterakrem, t.d. Mildison, á bitið
  • í einstaka tilvikum, ef fólk fær mjög alvarleg einkenni af bitunum, er hægt að meðhöndla þau með sterasprautum. Það er þó eingöngu gert í undantekningartilvikum.
sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV