Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pítsa fyrir einn logandi svangan!

10.12.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
- snarfljótleg & einföld! Kæru pítsuaðdáendur. Þegar þið komið heim eftir skólann og eruð svöng og langar í eitthvað gott, er miklu ódýrara og skemmtilegra að elda sér sjálfur eitthvað gott heldur en að kaupa sér eitthvað tilbúið. Að gera gerlausa pítsu tekur til dæmis enga stund. Hér er uppskrift fyrir einn logandi svangan ungling

1 dl gróft spelt
¼ tsk. sjávarsalt
1 msk. ólífuolía
½ dl heitt vatn (tæpur frekar en rúmur)

Hitið ofninn í 200°C. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og geymið á borðinu hjá ykkur. Blandið öllu saman í skál og hnoðið í kúlu. Notið fínt spelt svo ekki festist við hendur og borðið þegar þið fletjið út. Ef þetta er of þurrt bætið þið við ögn af heitu vatni í viðbót. Fletjið út eina mjög þunna pítsu. Setjið botninn á bökunarplötuna ofan á bökunarpappírinn og stingið inn í ofn í um 5 mínútur. Notið hanska til að taka plötuna út eftir 5 mínútur. Setjið þá tómatsósu og tómatpúrru á botninn í jöfnum hlutföllum (eða aðra pítsusósu) og svo ost, eins mikið og þið viljið hafa. Setjið svo pítsuna aftur inn í ofn og munið að nota hanskana. Takið hana út þegar osturinn er bráðinn. Munið að slökkva á ofninum.

 Ég set alltaf ólífuolíu á pítsuna mína og smá salat.

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir