Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Pírati og Ingileif leiða saman hesta sína

Mynd: RÚV / RÚV
Nýr þáttur af Hvað í fjandanum á ég að kjósa? er nú aðgengilegur á vef RÚV. Þættirnir eru netþættir ætlaðir ungu fólki og verða frumsýndir jafnt og þétt fram að kosningum.

Ingileif Friðriksdóttir heldur áfram að hitta fulltrúa stjórnmálaflokkanna í nýjasta þættinum af Hvað í fjandanum á ég að kjósa? Í þetta skipti er viðmælandinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður og ígildi formanns flokksins komi til stjórnarmyndunarviðræðna.

Það eru ekki margir sem vita það en Þórhildur Sunna var liðtæk hestakona á árum áður og því þótti var tilvalið fyrir hana og Ingileif að skella sér á bak og spjalla um stjórnmál og stefnu Pírata í fallegu umhverfi í Mosfellsdalnum. 

Fram kemur í þættinum að Píratar eru með ítarlega stefnu í hinseginmálefnum, vilja fella niður tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum og  beina sjónum sínum sérstaklega að réttarbótum fyrir þolendur kynferðisofbeldis. 

Öllum þáttunum fylgja orðskýringar á Twitter aðgangnum Hvað í fjandanum? auk þess sem þar má búast við aukaefni sem fylgir þáttunum. Þá má fylgjast með framleiðslu þáttanna á snapchat reikningi RÚV ruvsnap og Instagram reikninngnum ruvgram.  

ingileif's picture
Ingileif Friðriksdóttir