Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Píratar veikir fyrir embætti forseta Alþingis

02.12.2016 - 19:19
Mynd: Skjáskot / RÚV
Píratar eru veikir fyrir embætti forseta Alþingis en eru ekki komnir á þann stað að gera kröfu um annað hvort það embætti eða forsætisráðuneytið í fimm flokka stjórn ef af verður. Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í sjónvarpsfréttum RÚV.

Birgitta sagði að margir hefðu verið sammála um að ekki hefði verið búið að fullreyna að ná samkomulagi um fjármögnun ríkisins og sjávarútvegskerfið í fyrri umræðum flokkanna fimm.

Viðræður fimm flokka kalla á málamiðlanir sagði Birgitta. „Ég geri ráð fyrir að málamiðlanir verði mestar fyrir þá sem eru lengst til hægri og lengst til vinstri,“ sagði Birgitta og kvað miðjuflokkanna þurfa að vinna að því að byggja brú milli þeirra flokka.

Birgitta kvað flokka viljugri til málamiðlana nú en áður. Hún sagði Pírata hafa gefið mikið eftir og væru tilbúnir að ræða við formenn aðra flokka um hvað þyrfti að gera til að ná árangri.

Birgitta sagði Pírata ekki komna á það stig að gera kröfu um embætti forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Hún kvað Pírata leggja áherslu á að styrkja stöðu Alþingis og kvað að hún og samflokksfólk hennar væru „ ennþá mjög veik fyrir embætti forseta Alþingis“.