Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Píratar þriðji stærsti flokkurinn

02.03.2015 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Píratar eru þriðji stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. 15,2 prósent landsmanna myndu kjósa Pírata yrði gengið til kosninga nú. Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað á milli mánaða.

Í Alþingiskosningunum fyrir tæpum tveimur árum varð niðurstaðan þessi: Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæp 27 prósent atkvæða, Framsókn rúm 24 prósent, Samfylkingin tæp 13, Vinstri græn tæp 11, Björt framtíð rúm 8 prósent og Píratar rúm 5. 

Í dag segjast, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup, 15,2 prósent landsmanna myndu kjósa Pírata nú, eða þrefalt fleiri en kusu flokkinn í apríl 2013. Píratar bæta við sig hátt í fjórum prósentustigum á milli mánaða og aðeins Sjálfstæðisflokkurinn með 26 prósent fylgi og Samfylkingin með 17 prósent, njóta meiri stuðnings.

Þá mælist fylgi Bjartrar framtíðar rúm 13 prósent, Vinstri græn eru með rúm 11 og Framóknarflokkurinn sömuleiðis með 11 prósent. Fylgi Framsóknar minnkar um tæp tvö prósentustig á milli mánaða og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn tapa einu prósentustigi frá síðustu könnun. 

Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað, en rúmlega 37 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.