Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Píratar stærstir rúmri viku fyrir kosningar

Píratar tilkynna að þeir bjóði stjórnarandstöðuflokkum og Viðreisn til viðræðna um ríkisstjórnarsamstarf fyrir kosningar
 Mynd: RÚV
Píratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn 8,8 prósent, Samfylkingin mælist með 6,5 prósenta fylgi, hálfu prósentustigi meira en Björt framtíð.

Flokkur fólksins nær 3,8 prósenta fylgi en aðrir mælast með innan við tveggja prósenta fylgi.

Könnunin var gerð dagana 13. og 16. til 19. október, bæði með tölvupóstum og símtölum. Úrtakið voru 2.300, 59,4 prósent þeirra svöruðu og af þeim tóku 81,2 prósent afstöðu. Staðalfrávik eru ekki gefin upp í Morgunblaðinu og því ekki hægt að segja til um hvort munur á milli flokka sé marktækur.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV