Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Píratar sniðganga hátíðarfund vegna Kjærsgaard

18.07.2018 - 12:05
Mynd: Hreiðar Þór Björnsson / RÚV
Þingflokkur Pírata ætlar ekki að taka þátt í hátíðarfundi Alþingis sem haldinn er vegna þess að hundrað ár eru síðan sambandslagasamningurinn var undirritaður. Píratar segjast ekki geta veitt Piu Kjærsgaard, forseta danska þjóðarþingsins og stofnanda Þjóðarflokksins danska, lögmæti með nærveru sinni. Ýmsir hafa gagnrýnt að Kjærsgaard ávarpi Alþingi þar sem hún hefur lýst mikilli andstöðu við innflytjendur og verið umdeild vegna þess.

„Ég sé það sem svo að hið lýðræðislega tilraunaverkefni mannsins standi á tímamótum og hinum megin standi fasisminn,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. „Akkurat núna sjáum við það út um allan heim að það er verið að gera fasisma, rasisma, útlendingaandúð, andlýðræðisleg gildi á ýmis konar hátt. Við sjáum það í Bandaríkjunum, við sjáum það í ýmsum Evrópuríkjum og við höfum séð það þróast að sjálfsögðu í nágrannaríki okkar Danmörku.“

Vilja ekki veita Kjærsgaard lögmæti

„Að bjóða Piu Kjærsgaard að ávarpa hundrað ára fullveldisafmæli Íslendinga, að gefa henni ávarpsrétt á löggjafarsamkomu Íslendinga, er að færa henni lögmæti sem við getum ekki tekið þátt í og munum því ekki sækja hátíðarfund á Þingvöllum,“ segir Þórhildur Sunna. „Okkur þykir mjög þungbært og erfitt að hafa tekið þessa ákvörðun en samviska okkar leyfir okkur ekki að færa þeim boðskap sem hún ber með sér nokkurs konar lögmæti með viðveru okkar á þessum fundi.“

Þórhildur Sunna segir að Píratar ætli að athuga hvernig sú ákvörðun var tekin að bjóða Kjærsgaard að ávarpa þingið. „Við munum skoða það hvers vegna, bæði hjá okkur sem og öðrum, kviknuðu engin viðvörunarljós við þessa fyrirætlan. Við munum athuga hvort það standist yfir höfuð stjórnarskrá að standa svona að málum. Við munum skoða hvernig á því stendur að hingað er komið og enginn hefur gert athugasemd við akkúrat þetta fyrirkomulag fram að þessu.“

Ekki gæla við öfgaþjóðernishyggju í nafni þjóðarinnar

Í yfirlýsingu sem Píratar sendu frá sér skömmu eftir að fréttin var birt segir að hátíðahöld eins og þau sem fram fara í dag séu vandmeðfarin á tímum uppgangs þjóðernishyggju um víða veröld. Píratar segja sjálfsagt að fagna tímamótum sem þessum en það sé varhugavert að gefa þjóðernishyggju á nokkurn hátt undir fótinn við slíkt tilefni. „Íslenska þjóðin á betra skilið, en að gælt sé við öfgaþjóðernishyggju í hennar nafni.“

Píratar eru mjög ósáttir við komu Kjærsgaard á hátíðina. „Sú staðreynd að stofnandi eins mannfjandsamlegasta flokks Norðurlandanna sitji sem forseti danska þingsins er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni,“ segja Píratar og bæta við: „Að utanþingsmanni sem hefur unnið jafn ötullega að því að ala á sundrungu, útlendingahatri og Pia Kjærsgaard hefur gert sé boðið heiðursávarp á hátíðarfundi sem sameina ætti okkur Íslendinga, burtséð frá trú okkar og uppruna er hneyksli.“

Píratar segjast í yfirlýsingu sinni hafa flotið sofandi að feigðarósi þar sem persóna heiðursgestsins Kjærsgaard hafi ekki orðið þeim ljós fyrr en við fréttaflutning í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV