Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Píratar með 30 prósent í Þjóðarpúlsi

30.04.2015 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þrjátíu prósent landsmanna myndu kjósa Pírata ef gengið væri til kosninga nú, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups. Það þýðir að fylgi flokksins mælist sexfalt meira nú en atkvæðahlutfallið sem hann fékk í síðustu kosningum.

Það hefur mikið breyst frá kosninganótt 2013 þegar ekki varð ljóst fyrr en undir morgun að Píratar næðu kjörnum mönnum á Alþingi. Flokkurinn hafði þá verið sitt hvorum megin við fimm prósenta markið sem veitir framboðum rétt á jöfnunarsætum. Þar sem enginn frambjóðandi Pírata náði inn sem kjördæmakjörinn þingmaður þá réðust örlög þeirra á því hvort flokkurinn næði fimm prósentum á landsvísu eða ekki. Sú varð raunin, en það varð ekki ljóst fyrr en síðustu tölur lágu fyrir.

Í mikilli sókn frá 12. mars
Nú, tveimur árum síðar, mælist flokkurinn með mest fylgi allra stjórnálaflokka samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. 30,1 prósent styðja Pírata, það er átta prósentustigum meira en í síðasta mánuði og tvöfalt meira en fyrir tveimur mánuðum. Fylgi Pírata tók mikinn kipp um miðjan febrúar, um það leyti sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins bréf sitt þess efnis að íslensk stjórnvöld vildu ekki að lengur yrði litið á Ísland sem umsóknarríki að sambandinu. Þá fór fylgi flokksins úr 16 prósentum fyrri hluta mánaðar í 26 prósent síðari hlutann. Fylgið hefur enn aukist eftir það.

Minnsta fylgi Sjálfstæðisflokks á kjörtímabilinu
Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi hans fer úr 25,0 prósentum í 22,9 prósent og hefur ekki áður mælst svo lágt á kjörtímabilinu. Hæst fór það í 28 prósent í ágúst í fyrra. Fyrir nýju könnunina var það mesta fylgi sem mælst hafði við einn stjórnmálaflokk á kjörtímabilinu. Fylgi Samfylkingarinnar fer úr 15,8 prósentum í 14,1 og hefur ekki mælst svo lágt síðan í júlí 2013.

Vinstri-græn mælast með 10,6 prósenta fylgi, hálfu prósentustigi meira en í síðasta mánuði, og Framsóknarflokkurinn mælist með 10,1 prósent, var með 10,8 prósent fyrir mánuði. Framsóknarflokkurinn var sigurvegari síðustu kosninga, hlaut 24,4 prósent atkvæða og fór langleiðina með að tvöfalda fylgi sitt milli kosninga. Nú mælist fylgi flokksins innan við helmingur þess sem hann fékk í kosningum fyrir tveimur árum.

Tíu prósentastiga lækkun á rúmu ári
Fylgi Bjartrar framtíðar fer úr 10,9 prósentum fyrir mánuði í 7,8 prósent í nýjasta Þjóðarpúlsinum. Hæst fór fylgi flokksins í 17,5 prósent í mars í fyrra og er fallið því nærri tíu prósentustig á rúmlega ári. Fjögur prósent sögðust myndu styðja önnur framboð.

Þrettán prósent tóku ekki afstöðu eða vildu ekki gefa upp afstöðu. Tíu prósent sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa.

Helgi bjóst frekar við að fylgið færi niður
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, segir að niðurstöður könnunarinnar séu ánægjulegar en þetta komi einnig svolítið á óvart því hann taki öllum skyndilegum sveiflum með fyrirvara. „Ef ég á að segja alveg eins og er bjóst ég við að þetta færi eitthvað aftur niður því sveiflan var svo mikil,“ segir Helgi Hrafn, sem virtist orðlaus í fyrstu þegar fréttamaður sagði honum niðurstöðurnar. Hann segir þó margt geta breyst á þeim tæpu tveimur árum sem eru til kosninga.

„Ég get ekki túlkað það öðruvísi en hingað til að með þessu séu aðspurðir að undirstrika að þeir vilji kerfisbreytingar, ekki bara mannabreytingar heldur kerfisbreytingar,“ segir Helgi Hrafn. Það sé orðin gömul lumma að tala um gamaldags stjórnmál og ný stjórnmál, breyta verði því hvernig kerfið virkar. „Það er ekki nóg að skipta út fólkinu og setja nýjar áherslur, heldur þarf að breyta ákvarðatökuferlinu. Hann segir mikilvægast að færa valdið nær fólkinu.

32% styðja ríkisstjórnina
32 prósent aðspurðra sögðust styðja ríkisstjórnina og er það þremur prósentustigum minna en í síðustu könnun. Stuðningurinn nú er sá minnsti sem mælst hefur við ríkisstjórnina. Hann hefur áður farið lægst í 33 prósent í október í fyrra.

Um könnunina
Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu? Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna? Styður þú ríkisstjórnina? Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 8. til 29. apríl 2015. Heildarúrtaksstærð var 4.192 og þátttökuhlutfall var 58,9%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9-2,1%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV