Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Píratar fengju fjóra menn

Mynd með færslu
 Mynd:
Framsóknarflokkurinn eykur forskot sitt á Sjálfstæðisflokkinn í fylgiskönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Fylgi Framsóknar mælist 30 komma 9 prósent sem er aukning um 2,4 prósentustig frá síðustu sams konar könnun. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,9 prósent.

Það er rúmum sjö prósentustigum minna en síðast.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 12 komma 6 prósent, sem er nánast það sama og síðast, Björt framtíð er með 10,9 prósent sem er svipað og síðast, Vinstri grænir eru með 8,8 prósent, bæta aðeins við sig. Píratar fá menn kjörna samkvæmt könnuninni, fá 5,6 prósent. Önnur framboð fá undir 5 prósentum. Lýðræðisvaktin mælist með 3 prósent, önnur framboð minna. 

Samkvæmt þessari könnun fengi Framsóknarflokkurinn 24 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn þrettán og Samfylkingin níu. Björt framtíð fengi sjö þingmenn, Vinstri grænir sex og  Píratar fjóra en aðrir flokkur næðu ekki inn á þing. Framsóknarflokkurinn gæti því myndað ríkistjórn með annað hvort Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni gangi þess könnun eftir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. 

Sé horft til búsetu þeirra sem tóku þátt í könnun Félagsvísindastofnunar er stuðningur við Framsóknarflokkinn áberandi mestur á landsbyggðinni.  Fólk á miðjum aldri eru helstu stuðningsmenn flokksins en stuðningur við VG, Bjarta framtíð og Pírata mælist mestur meðal yngra fólks. Hjá Samfylkingunni er stuðningurinn mestur hjá fólki eldra en sextíu ára en hjá Sjálfstæðisflokknum er þessi skipting frekar jöfn.

Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð dagana annan til áttunda apríl, Úrtakið var 3700 manns á aldrinum átján til 95 ára og svarhlutfallið var 61 prósent.